150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[12:36]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum í dálítið áhugaverðri stöðu með þessi verkefni og þetta mál þar sem það er tiltölulega augljóst að staða ríkissjóðs gagnvart lánsfé er mjög góð en ríkissjóður getur að sjálfsögðu ekki bara fengið lán endalaust. Til dæmis hefur komið fram athugasemd frá fjármálaráði varðandi fjármálaáætlun, um að aðhald í fjármálum hins opinbera felist ekki bara í framkvæmdum og skuldsetningu o.s.frv. heldur líka í arðsemi þeirra verkefna sem fjárfest er í. Við höfum þennan samanburð á ákveðinni skuldsetningu ríkisins og arðsemi og aðhaldi í ríkisfjármálum á sama tíma, ef þessi verkefni eru eins arðbær og sagt er, enda sagði ráðuneytið að heppileg verkefni hefðu verið valin í þetta módel og á móti höfum við umsagnir um meðalaukakostnað, t.d. í Evrópu, og samkvæmt útreikningi FÍB um að kostnaður við að fara í verkefnin á þennan hátt sé 20–30% hærri, 33% hærri samkvæmt útreikningum FÍB. Það rímar ágætlega vel við íslenska reynslu þar sem Hvalfjarðargöngin voru kannski á u.þ.b. réttu róli miðað við kostnaðaráætlun, hefðu verið ódýrari í rauninni í ríkisframkvæmd, en þar var ákveðin ríkisábyrgð á sem lækkaði kostnaðinn, á meðan Vaðlaheiðargöngin kostuðu tvöfalt meira. Þannig að við erum að bera saman þennan möguleika á að bjóða fólkinu í landinu upp á framkvæmd sem er 20–30% ódýrari en lagt er til hérna. Hver væri í rauninni réttlæting (Forseti hringir.) okkar fyrir því að grípa ekki það tækifæri að gera þetta mikið (Forseti hringir.) ódýrara? Ég átta mig ekki alveg á því og velti fyrir mér hvort hv. þingmaður hefur rekist á rökin hjá meiri hlutanum í þessu máli.