150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[12:41]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er einmitt lykilatriði. Af hverju veljum við dýrari kostinn? Það verður ekki miklu flóknara en það í raun og veru. Er það einmitt út af þessum fjármálareglum sem koma í veg fyrir meiri lántöku? Hversu gáfulegar eru þá þær fjármálareglur, sérstaklega ofan í þá umsögn sem við höfum fengið um að auknar framkvæmdir eða lántaka er ekki endilega merki um lítið aðhald í opinberum fjármálum ef farið er í arðbær verkefni, þ.e. arðsemin við að fara í verkefnið borgar sig meira en skuldabyrðin býr til? Þá borgum við upp lánið með arðseminni af verkefninu. Það tekur að sjálfsögðu einhvern tíma en tekur það ekki jafnvel styttri tíma en að greiða upp lánið? Þannig forsendur erum við með. Og af því að þetta er grundvöllurinn að því hvernig við ættum að taka ákvarðanir um það hvaða verkefni við förum í þá er athyglisvert að þessar forsendur vantar í öll þessi verkefni og í rauninni velflest þau verkefni sem við glímum við í samgönguáætlun. Einkaaðilar taka í raun bara tillit til þess ágóða sem þeir geta fengið fyrir gjöld af framkvæmdinni en opinberir aðilar geta tekið sér til hagnaðar miklu stærri samfélagslegan ábata af framkvæmdinni sem er hægt að réttlæta að borgi niður þau útgjöld sem hið opinbera leggur í. Þann samfélagslega ábata fá einkaaðilar aldrei í sinn vasa í gegnum notendagjöld. Þeir þurfa að rukka meira. Meðal annars þess vegna er kostnaðurinn 20–30% meiri, það er einfaldlega skattahækkun.