150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[12:46]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni yfirferð yfir nefndarálit minni hluta og ég vil ekki síst þakka honum í því ljósi að það er mjög mikilvægt að fram fari dálítið gagnrýnin umræða um þá aðferðafræði sem við erum að innleiða. Ég er samt í grundvallaratriðum ósammála honum enda stend ég að áliti meiri hluta. Þeim efasemdum sem ég hafði kannski í upphafi þessa máls hefur verið svarað mjög vel einmitt af fulltrúum Vegagerðarinnar. Þess vegna kom það mér mjög á óvart í ræðu hv. þingmanns þegar hann lét í raun að því liggja að með þessari aðferðafræði væri á einhvern hátt verið að gera lítið úr frammistöðu og framkvæmdagetu Vegagerðarinnar. Ég vil því spyrja hann hvort það sé ekki rétt að fyrir nefndinni hafi komið fram að Vegagerðin væri einmitt mjög áfram um að farið yrði í þessar framkvæmdir með þessum hætti til að auka möguleika hennar á að kynna sér nýja aðferðafræði og fara í nýsköpun á ýmsum sviðum í samvinnu við þá aðila sem þarna koma til með að koma að verkum. Og eins kom það fram hjá Vegagerðinni að auðvitað er unnið að mikilvægum fýsileikakönnunum um öll þessi verkefni sem eru komin mislangt, sum mjög langt. Getur þingmaðurinn ekki staðfest það að fýsileikakönnunin er unnin á vegum Vegagerðarinnar? Eins og kemur líka skýrt fram í nefndaráliti þarf að mörgu leyti að vera komið miklu lengra í öllum undirbúningi og útfærslu þessara verkefna eða að vera búið að negla niður önnur atriði, m.a. fýsileikann, heldur en í ýmsum öðrum vegagerðarverkefnum. Þannig að þarna er líka sú aðferðafræði sem verið er að þróa.