150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[12:48]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Guðjón S. Brjánsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það flögrar ekki að mér að gera lítið úr framlagi Vegagerðarinnar í þessu samhengi frekar en öðru. Þar er okkar allra færasta fólk og við eigum að hafa það í forystusveit. Vegagerðin vill auðvitað byggja vegi og fagnar því að við komumst áfram veginn. Það kann vel að vera að hún sé að einhverju leyti dús við þessar leiðir en ég minnist þess ekki sérstaklega að hún hafi mælt með því að fara þessa leið enda kannski ekki hennar hlutverk að hafa á því sérstaka skoðun. Það blasir við að þessi sex verkefni eru eins ólík og þau geta verið, eins og þau eru nú öll brýn, þau eru öll bráðnauðsynleg. Við höfum nefnt veginn yfir Öxi, það er ekki síst brýnt verkefni. En það á ekki að mínu áliti heima í svona gjaldtökuverkefni, bara íbúanna á svæðinu vegna. Við eigum að taka alla gjaldtöku í umferðinni til heildarendurskoðunar og láta alla vegfarendur njóta þess sama. Ég tel að það sé ekki réttlæti í því að íbúar á þessum svæðum séu rukkaðir, a.m.k. tímabundið, umfram það sem gerist og gengur almennt í þjóðvegakerfinu.