150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[12:52]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Guðjón S. Brjánsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Enn um okkar ágætu Vegagerð ríkisins eins og hún hét, ég veit ekki hvort hún heitir það enn. Hún er áfram um að búa til vegi og þetta er auðvitað fagfólk sem vill styðjast við nýjustu og bestu þekkingu sem völ er á og hefur staðið sig með miklum sóma. Gæti þetta verið áhugaverð tilraun? Kannski. En er nauðsynlegt að fara í svona umfangsmikla og dýra tilraun sem kostar okkur 20 milljarða? Er ekki hægt að fara einhverja millileið í því? Ég spyr hv. þingmann, virðulegur forseti.

Varðandi umferðarmælingarnar og álagið, af því að við erum að ræða um þessa tilteknu leið fyrir austan, þar sem ég segi að komið hafi fram í frumvarpinu áætlun um 220 bíla á dag: Auðvitað verður gjörbreyting þarna, það er alveg augljóst og umferð eykst mikið, bæði um sumar og vetur. Þetta er sennilega nánast eingöngu sumarvegur og sú mynd verður gjörbreytt.

Hv. þingmaður nefndi að í Noregi stefni menn að því að einkaframkvæmdir séu 20–30% ódýrari. Ég er undrandi á því að þetta sé ekki sett fram sem eitt höfuðmarkmið með þessu frumvarpi. Ég hef ekki heyrt á þetta minnst fyrr. Þetta kemur ekki fram í nefndaráliti eftir því sem ég hef komist næst.

Virðulegur forseti. Rétt áður en ég lýk máli mínu þá vil ég bara undirstrika það álit Samfylkingarinnar að við stöndum frammi fyrir breyttum aðstæðum (Forseti hringir.) með orkuskiptum og við eigum að taka þetta heildstætt, ekki að mismuna þegnunum með gjaldtöku á (Forseti hringir.) einhverjum blettum í samfélaginu.