150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

framhald þingstarfa.

[13:41]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég hef ekkert út á fundarstjórn forseta að setja. En fyrst við erum á þessari línu er eins gott að ég verði á henni líka. Horfa út fyrir eigin nafla, segir ágætur hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé. Eigum við að semja? Eigum við ekki að semja? Mig langar til að segja ykkur um hvað málið snýst t.d. hjá Flokki fólksins. Það eru mál sem við eigum að fá, þrjú mál sem við máttum velja til að semja um. Eitt mál var forgangsmál. Þá komu þeir með mál númer þrjú og buðu okkur það. Þeir ákveða hvaða mál við eigum að taka út. Málið sem við erum að tala um í forgang er gildandi réttur nú þegar. Það er gildandi réttur um 69. gr. almannatryggingalaga. Við erum bara að setja punktinn yfir i-ið og óskum eftir því að þessi grein verði styrkt það rækilega að það verði aldrei val ráðherra að ákveða að þegar vísitöluleiðrétting launa fyrir almannatryggingaþega og fátækasta fólkið í landinu er um áramót verði hún látin fylgja almennri launaþróun í landinu. Það verður bara þannig og það er ekki hægt að semja um það. Við erum að tala um gildandi rétt, virðulegi forseti.