150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[14:18]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir ræðu hans. Ég ætla að byrja í andsvörum við hann að nefna Sundabrautina, hún er nefnilega inni í þessu, þetta stórmerkilega fyrirbrigði sem búið er að ræða um í fjölda ára. Þetta minnir mig á, og hefur alltaf minnt mig á, annað fyrirbrigði sem ég hef heyrt talað um enn þá lengur, eða þrisvar sinnum lengur heldur en um Sundabrautina, og það er ofanbyggðavegurinn, (Gripið fram í: Ofan… ?) ofanbyggðavegur. (Gripið fram í: Já.) Hann var á teikningu fyrir 40–50 árum síðan og er eiginlega enn á teikningunni, en til að koma honum á teikninguna þarf að fara undir Garðabæ, held ég, bora þar í gegn. En það sem er kannski furðulegast við þetta er, ef við tökum Sundabraut, hvað á hún að leysa? Getum við ekki verið sammála um að það er svolítið skrýtið að hún eigi að koma að Vesturlandsveginum og tengjast þar. Stærsti hluti þeirra sem koma til landsins, og nota þjóðveg 1, kemur frá Keflavík, frá Suðurnesjunum og þaðan. En til að geta notað Sundabrautina þarf fólk að fara í gegnum Hafnarfjörð, Garðabæ, Kópavog og Reykjavík til að komast á þessa blessuðu Sundabraut þannig að það verður alltaf flöskuháls. (Gripið fram í.) Við erum sem sagt að byrja á röngum enda. Ég myndi segja að við ættum að byrja á því að leysa þetta vandamál.

Ég hef ferðast mikið um heiminn. Ég hef hvergi lent í því að þurfa að fara í gegnum þrjú eða fjögur sveitarfélög til að komast fram hjá borg af því að ég er að fara eitthvað annað, norður, austur, vestur. Í Danmörku fer maður ekki í gegnum neitt sveitarfélag þegar maður ætlar að fara frá Kaupmannahöfn og alla leið til Þýskalands, maður fer bara hraðbrautina beina leið. Ef maður vill fara inn í eitthvert bæjarfélag, þá beygir maður bara niður úr. En hér á Íslandi er það annað. Það eina sem vantar inn í þessa áætlun, held ég, væri að gera hringtorg á Seltjarnarnesi. (Gripið fram í.) Maður yrði að fara þangað áður en maður fengi að fara út úr bænum.