150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[14:41]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni fyrir ræðuna. Ég er að spá í allar þessar framkvæmdir og við höfum víti til varnaðar sem eru Vaðlaheiðargöngin. Það sem er eiginlega mesta vítið til varnaðar með Vaðlaheiðargöngin var hvernig gengið var frá göngunum eftir að þau voru fyrst opnuð. Það var eins og það væri verið að vísa öllum í gegnum göngin og sérstaklega þeir sem þekktu ekki til gerðu sér ekki grein fyrir því að þeir gátu farið fram hjá göngunum og sleppt því að borga. Og ég er að spá í hvernig þetta verður útfært á öllum þessum sex stöðum.

Síðan er Öxi sem er vegur sem ég hef — ég var að reyna að rifja það upp — örugglega farið einu sinni og þá var ég að flýta mér en ef ég er ekkert að flýta mér þá tek ég hina leiðina sem er 61 km, miklu flottari leið og miklu skemmtilegra að fara hana. Rökin eru þau að það væri hægt að borga 2.000–3.000 kr. fyrir að fara Öxi. Það myndi spara 60 km og það er akkúrat drægi nýjustu tengirafbílanna á rafmagni. Þannig að það væri hægt að fara þetta með mjög litlum kostnaði, kannski hundraðkalli eins og staðan er í dag. Þannig að það er enginn vandi að fara þarna fram hjá. En ég er að spá í hvort einhver viti hvort kostnaðurinn við þessar framkvæmdir hafi verið reiknaður. Þetta verða kannski framkvæmdir upp á 100 milljarða, ég veit ekki hvað þetta verður í heild sinni, hversu rosalegur peningur er þarna á bak við. Hvað myndi þetta kosta á hverja einustu bifreið á landinu (Forseti hringir.) ef þetta væri sett inn í veggjöldin?