150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[14:45]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Þetta er eiginlega svolítið spennandi. Ef við tökum sem dæmi 10.000 kr. skatt á hvern einasta bíl og það eru 300.000 bílar á landinu, þá erum við komin með 3 milljarða. Og ef við setjum þetta í röksemdafærslu þá segir einhver: Ég fer aldrei neitt, ég þarf ekkert að borga þarna fyrir austan eða vestan eða einhvers staðar. Þá gildir nákvæmlega sama og fyrir Ríkisútvarpið. Það borga allir bara ákveðna upphæð fyrir Ríkisútvarpið, þó að þeir hlusti aldrei á það og vilji ekki sjá það.

Það er hægt að gera þetta og með einhverjum tilfærslum sleppum við við innheimtuna. Við erum að fara að búa til risabatterí til þess að innheimta þetta. Það hlýtur nú að kosta eitthvað smá. Við vitum að það er farið voðalega flott í það, að þetta verði lágmarkskostnaður að tengja o.s.frv. en við vitum það. Við vitum að þetta verður kostnaður og þetta verður mikill kostnaður og það þarf ekkert að segja okkur annað. Ef við værum virkilega að hugsa út fyrir kassann og reyna að gera þetta hagkvæmt, þá myndum við taka svona kostnað út. Eins og með kílómetragjaldið, það er bara hægt að lesa á bílum einu sinni ári, ákveða að það sé borgað bara ákveðið fyrir hvern kílómetra, og þá þurfum við ekki að vera með veggjöld eða einhverja svakalega uppbyggingu við að reyna að finna út hvað þetta kostar. Síðan er auðvitað það sem maður óttast langmest, ef þetta fer í einkaframkvæmd, að kostnaðurinn fari úr böndum eins og Vaðlaheiðargöngin gerðu, sem virðist bara hafa verið framkvæmd einhvern veginn í blindni.