150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

lyfjalög.

390. mál
[16:40]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirferðina yfir nefndarálitið, sem ég er á með fyrirvara vegna þess að ég gat ekki tekið mig af því eftir að hafa greitt því atkvæði í nefnd. Ég mun koma betur að því í ræðu minni á eftir.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í umsögn embættis landlæknis. Þar er að finna fjölmargar athugasemdir sem ekki hefur verið tekið neitt tillit til. Eitt meginhlutverk embættisins er að hafa eftirlit með lyfjaávísunum og fylgjast með og stuðla að skynsamlegri lyfjanotkun landsmanna, eins og segir í lögum um landlækni og lýðheilsu.

Spurning mín lýtur að 33. gr., en þar er talað um heimild lyfjaheildsölu til sölu og afhendingar lyfja beint frá heildsöluleyfishafa eða heilbrigðisstofnun til almennings. Um er að ræða nýmæli og ekki útfært, eins og kemur fram í umsögninni, hvorki í frumvarpi né í nefndaráliti. Embætti landlæknis segir mikilvægt að ekki verði sett upp sérstakt kerfi utan hins almenna ávísunar- og afgreiðslukerfis órökstutt eða óútfært. Þá bendir embætti landlæknis einnig á það í umsögn sinni að ákvæði 1. mgr. 51. gr. sé í ósamræmi við umrætt ákvæði 33. gr. þar sem gert er ráð fyrir sölu og afhendingu ákveðinna lyfja, enda segir í 1. mgr., með leyfi forseta: „Einungis er heimilt að afhenda ávísunarskyld lyf gegn framvísun lyfjaávísunar í lyfjabúð.“

Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hann geti útskýrt fyrir þingheimi og almenningi hvernig nefndin sér fyrir sér að þetta samspil 33. gr. annars vegar og 1. mgr. 51. gr. hins vegar, gangi upp.