150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

lyfjalög.

390. mál
[16:43]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og vil nú lýsa vonbrigðum mínum með að þingmaðurinn, sem ég tel að hafi lagt gott eitt til við vinnslu málsins, sé nánast að lýsa því yfir hér að hún sé ekki lengur samþykk málinu eða vilji ekki vera á nefndarálitinu. Það verður þá svo að vera.

Þingmaðurinn spyr sérstaklega út í umsögn landlæknis og ég fór, eins og þingmaðurinn, yfir álit landlæknis. Ég taldi ekki ástæðu á þessu stigi málsins til að breyta eða gera tillögu um breytingar á þessu ákvæði í samræmi við umsögn landlæknis. Það má kannski segja að ég hafi ekki sterkar skoðanir á því nákvæmlega hvort þessi athugasemd eigi að einhverju leyti rétt á sér. En eins og ég segi, ég taldi a.m.k. ekki við vinnslu málsins að ástæða væri til að breyta frumvarpinu í samræmi við þessa ábendingu embættisins.