150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

lyfjalög.

390. mál
[16:46]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Eins og þingheimi er kunnugt eru lyfjaverslanir víða reknar þannig, og sérstaklega útibú lyfjaverslana, að þar starfa starfsmenn sem afgreiða lyf í umboði lyfjafræðings. Þetta er alvanalegt á Íslandi og þekkist mjög vel. Eftir sem áður ber lyfjafræðingur ábyrgð á starfi þess starfsmanns sem afhendir lyfin eða afgreiðir þau. Þetta frumvarp gerir ekki ráð fyrir neinum breytingum hvað það varðar. Eins og fram kemur í nefndarálitinu um tvo lyfjafræðinga er aðeins verið að rýmka heimildina sem fyrir var í lögum. Hvorki er talin forsenda (Forseti hringir.) til að herða né rýmka þau ákvæði sem talin eru í frumvarpinu. Niðurstaða nefndarinnar er eins og fram kemur í nefndarálitinu.