150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

lyfjalög.

390. mál
[16:49]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni fyrir andsvarið. Þingmaðurinn spyr: Er þetta vandað lagafrumvarp og er þetta nægilega vönduð vinna? Ég held að óhætt sé að svara því játandi. Eins og þingmanninum er kunnugt er þetta ekki fyrsta tilraun til að koma lyfjalögum í gegnum þetta þing. Málið er búið að fara nokkrar umferðir í ráðuneytinu og hér í þinginu. Hv. velferðarnefnd hefur haft málið til meðferðar síðan 28. nóvember. Eins og ég gat hins vegar um áðan setur heimsfaraldur kórónuveiru smávegis strik í reikninginn, þ.e. með samfelluna í vinnunni. Engu að síður held ég að vinnan sé vönduð og menn eigi ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því að ekki sé tekið tillit til þeirra sjónarmiða sem þarf að taka tillit til.

Varðandi lyfjaaðgengi á landsbyggðinni erum við hv. þingmaður algjörlega sammála um að mjög mikilvægt sé að það sé til staðar. Inn í frumvarpið var tekið ákvæði sem stundum hefur verið kallað Bíldudalsákvæði, þ.e. að á stöðum þar sem ekki er lyfjaverslun og ekki hefur gengið að halda úti lyfjaútibúi sé heimilað að selja lausasölulyf eftir lista sem Lyfjastofnun ákveður. Ég held að þetta sé mjög mikilvægt. Varðandi það sem ég held að þingmaðurinn hafi verið að spyrja um, hvort nægilega faglega sé staðið að því að afhenda lyf án þess að lyfjafræðingur sé á staðnum, þá veit þingmaðurinn jafn vel og ég að eftir sem áður er ábyrgð (Forseti hringir.) lyfjafræðings á þeim starfsmönnum til staðar. Það er ekki eins fullkomin afgreiðsla (Forseti hringir.) en ég tel að hún hafi reynst vel hingað til (Forseti hringir.) og hún gerir það væntanlega áfram.