150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

lyfjalög.

390. mál
[16:56]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og spurninguna. Hún spyr út í lyfjanefndina. Eins og þingmanninum er kunnugt um voru í umfjöllun nefndarinnar margar athugasemdir um lyfjanefndina. Kannski komu stærstu álitaefni þar til vegna þess að menn bentu á möguleikann sem kynni að skapast á að forstjóri heilbrigðisstofnunar, í þessu tilfelli Landspítalans, gæti í raun verið að skipta sér af faglegum ákvörðunum nefndarinnar. Menn höfðu áhyggjur af þessu og þetta var töluvert rætt í nefndinni. Þess vegna eru gerðar þær breytingar sem nú liggja fyrir. Varðandi síðan atriðið sem þingmaðurinn spurði sérstaklega út í, hvort efni væru til þess að taka bara breytingartillögu hennar í staðinn þá er hún ekki alveg eins, eins og maður segir, og sú breytingartillaga sem ég hyggst leggja fram. Í rauninni mun sú tillaga fyrst og fremst snúast um að ekki verði áskilnaður um tilnefningar heldur verði fyrst og fremst í henni að ráðherra muni skipa lyfjanefndina. Eins og ég nefndi í ræðu minni áðan þá hlýtur maður, eðli málsins samkvæmt, að gera ráð fyrir því að ráðherra leiti til þeirra fagmanna og þeirra stofnana sem helst eiga undir. Það er til að mynda ekki víst að t.d. einstaklingur með sérfræðiþekkingu (Forseti hringir.) á siðfræðihlutanum sé alltaf starfsmaður Landspítalans. Hann gæti verið annars staðar í kerfinu.