150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

lyfjalög.

390. mál
[17:38]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Hér fjöllum við um frumvarp til lyfjalaga. Þetta er gífurlega mikilvægt mál og ég verð bara að taka undir það sem hér hefur komið fram. Ég vil sérstaklega taka undir með formanni velferðarnefndar, hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur. Ég skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara. Ég taldi að við gætum sloppið með þetta í nefndarálitinu en það eru komnar breytingartillögur, sem eru til bóta, en því miður vantar þar inn í. Það hafa komið upp gífurlega mörg vafaatriði í þessu máli og við getum ekki leyft okkur og eigum ekki að leyfa okkur að sleppa málinu svona í gegn. Við verðum að átta okkur á því í þessu samhengi að 27 umsagnir komu um málið, sem er gífurlegur fjöldi. Ég taldi einhvern tímann blaðsíðurnar, þetta voru svakalega margar blaðsíður, mikil lesning. Og því meira sem ég las, þeim mun betur áttaði ég mig á því hversu umfangsmikið þetta mál er. Þetta er gríðarlega alvarlegt mál og sérstaklega alvarlegt ef, eins og fram kom áðan, landlæknir gerir ákveðnar athugasemdir. Það hefur einnig komið fram varðandi það hversu alvarlegt þetta er, að það breyti engu hvort fólk brjóti þessi lög af ásetningi eða gáleysi, refsingin verður sektir eða fangelsi. Þetta er eiginlega sorglegt og sérstaklega í ljósi þess að þetta mál féll svolítið til hliðar þegar Covid brast á þannig að það hefur ekki fengið nærri því nægilega umfjöllun í nefndinni.

Ég ætla ekki að hafa þetta langt mál, en ef við horfum bara á hvað er undir í þessu þá erum við að tala um a.m.k. tvo lyfjafræðinga í lyfjabúðum, leyfi til dýralækninga, ýmislegt um skyldur heilbrigðisstarfsmanna, miðlægan gagnagrunn, lyfjakort og persónuvernd, lyfsöluleyfi heilsugæslustöðva, sölu á lyfjum í smásölu. Þetta er gríðarlega umfangsmikið mál, og eins og ég segi, ég man ekki til þess að ég hafi nokkurn tímann skrifað undir nefndarálit með fyrirvara og ekki getað stutt málið. En eins og málið er sett upp hérna þá sé ég ekki hvernig í ósköpunum ég á að geta stutt það. Mér skilst að nýjasta útspilið sé að einhverjar breytingartillögur séu að koma sem hafa verið tilkynntar hér í ræðustól. Þá hljóta þær að eiga að koma til framkvæmda og verða ræddar á fundi velferðarnefndar, sem við eigum eftir að halda. Ég veit ekki hverju það á að skila en vonandi skilar það einhverju. En eins og staðan er núna og eins og þessu máli er háttað þá verður bara að segjast alveg eins og er að við hefðum þurft miklu meiri tíma til þess fara í gegnum það og fleiri aðila sem sýndu okkur að það væri ekki nógu vel unnið, og fá þá fyrir nefndina. Ég vona heitt og innilega að okkur auðnist það. En ef ekki og málið fer svona óbreytt til atkvæðagreiðslu þá mun ég vera á gulu.