150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

félagslegur viðbótarstuðningur við aldraða.

666. mál
[18:23]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér mjög mikilvægt mál sem varðar fáa einstaklinga en skiptir gríðarlega miklu máli. Það er frumvarp til laga um félagslegan viðbótastuðning við aldraða. Þarna er hópur sem dottið hefur út úr kerfinu og hefur þurft að lifa á — ég veit um dæmi um 70.000 kr. á mánuði, sem segir sig sjálft að er ekki hægt að lifa á, þannig að viðkomandi þarf að leita til sveitarfélaganna, jafnvel líka eftir mataraðstoð. En það sem er furðulegast við þetta frumvarp er það að ég styð það heils hugar, en það er samt meingallað. Það er eiginlega furðulegt í því samhengi vegna þess að flækjustigið í þessu máli er svo rosalega mikið og algjörlega óþarft. Verið er að setja 90% greiðslur í staðinn fyrir 100%. Það kallar á útreikninga. Það er kostnaður á bak við það, sem er mjög skrýtið miðað við hversu fáir einstaklingar eiga í hlut. Og það sem er líka furðulegt og okkur til háborinnar skammar er að við setjum aftur inn krónu á móti krónu skerðingu. Hvernig dettur okkur það í hug? Það er alveg með ólíkindum að við skulum vera aftur komin á sama plan og taka akkúrat þennan hóp fyrir og segja: Heyrðu, við setjum bara krónu á móti krónu skerðingu á þennan hóp aftur.

Síðan er hitt sem ekki hefur fengið nægilega umfjöllun, ég styð þetta frumvarp, en hér vantar inn öryrkja. Þetta á auðvitað gilda nákvæmlega eins um öryrkja sem eru í þessari aðstöðu. Það eru nokkrir öryrkjar í þeirri ömurlega aðstöðu að við uppreikning á örorkubótum þeirra er tekið tillit til búsetu og einstaklingur, ungt fólk sem fer á örorku og hefur einhverra hluta vegna farið með foreldrum utan í nám, lendir í þessu. Ég spyr: Af hverju í ósköpunum eru þetta fólk ekki haft með?

Ég fagna því að þetta frumvarp sé fram komið því að þá hljóta öryrkjarnir að fylgja með. Annað væri okkur til skammar.

Það kemur skýrt fram í þessu frumvarpi að kostnaður hjá Tryggingastofnun er fyrst 30 millj. kr. og síðan 40 millj. kr. á ári eftir það. Þessi kostnaður væri ekki til staðar ef við hefðum bara gert nákvæmlega sama eins og venjulega hjá Tryggingastofnun, það giltu bara sömu reglur og um 100% greiðslur. Allt annað myndi gilda. Og króna á móti krónu skerðing væri ekki þarna inni. Það væru bara nákvæmlega sömu reglur og gilda hjá öðrum eldri borgurum þessa lands. Þetta er auðvitað alveg stórmerkilegt fyrirbæri. Af hverju setjum við þessa eldri borgara í einhverja bása og segjum: Þú ert 90%, þú ert 100%? Og síðan tökum við öryrkjana og segjum: Þið fáið ekkert að vera með.

Ég hélt að við værum orðin þróaðri og komin lengra en svo í mannréttindum og virðingu fyrir veiku fólki og eldri borgurum þessa lands, að við gerðum slíka hluti. Ég myndi skilja það vel að við gerðum þetta vegna þess að þetta kostaði svo rosalega mikið, að við værum á þeim stað og að þjóðfélagið væri þannig að við hefðum bara á engan hátt efni á að gera þetta. En hvað segja tölurnar okkur? Þetta er ekki óyfirstíganlegur kostnaður. Þetta er bara spurning um sanngirni og að við virðum mannréttindi.

En eins og ég segi, ég mun styðja þetta mál þó að ég hafi fundið alla þessa ágalla á því vegna þess að ég veit að þetta fólk þarf á þessu að halda. Ég tel þetta bara fyrsta skrefið og mun berjast fyrir því að þetta verði bara fyrsta skrefið í þá átt að hjálpa þessum hópi og að á eftir komi allir hinir. Ef ríkisstjórnin sér ekki til þess þá mun ég pottþétt leggja fram mál um að einstaklingar, eins og öryrkjar sem standa fyrir utan, fái líka að koma þarna inn, að þetta sé á sama grundvelli, að allir séu jafnir, að við setjum ekki fólk í bása út frá því hvernig þeir komu til landsins.

Ef við ætlum að samþykkja að fólk sé hérna og að það eigi að hafa öll réttindi þá á það að hafa 100% réttindi, ekki 90%.