150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

838. mál
[18:53]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég ætla að koma hér örstutt upp um þetta mál, sem fjallar um þjónustu við fatlað fólk. Ég fagna þessu máli sérstaklega, að við séum að ljúka því að afgreiða það úr nefnd og höggva á þann hnút sem upp var kominn í samskiptum við NPA. Það sem er kannski mesta fagnaðarefnið með notendaráðið er að kjörorð Öryrkjabandalagsins verður gert að skilyrði: Ekkert um okkur án okkar. Það kemur þarna sterkt inn vegna þess að viðkomandi aðilar, fatlaðir einstaklingar, eiga nú rétt á því að koma að málum sínum. Þetta er því bara gott mál. Ég er mjög feginn að það sé komið inn og að þessu máli ljúki hér.