150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og skráning raunverulegra eigenda.

709. mál
[19:08]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég ætla að gera stuttlega grein fyrir fyrirvara mínum við þetta mál og við nefndarálit meiri hlutans og niðurstöðu hans. Hann er sá að ég hefði viljað halda inni 3. gr. í frumvarpinu, sem meiri hlutinn leggur til að falli brott. Sú grein kveður á um að heimild eftirlitsaðila til að veita undanþágu frá skyldu til að framkvæma áhættumat verði felld brott, þ.e. í 3. gr. er gert ráð fyrir að undanþágan verði felld brott. Ástæðan fyrir því er reynsla Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins af þessu, það séu óljós viðmið til staðar varðandi það hvað þurfi til að tilkynningarskyldir aðilar fái slíka undanþágu. Í frumvarpinu stendur að rétt sé að fella undanþáguna brott úr lögunum. Meiri hlutinn var ekki sammála því og vildi halda þessari undanþágu inni með þessum óljósu viðmiðum. Þess vegna er ég með fyrirvara við málið, sem er hins vegar hið allra besta mál. Það er augljóst að við þurfum að koma okkur sem fyrst af gráa listanum og reka af okkur slyðruorðið hvað það varðar að setja skýr lög og mörk og skilyrði til að vinna gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.