150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

loftslagsmál.

718. mál
[19:27]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Herra forseti. Ég flyt hér nefndarálit með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, frá umhverfis- og samgöngunefnd. [Sjá leiðréttingu þm. á 129. fundi kl. 11:33.] Við fengum 16 gesti og 16 umsagnir. Til almennrar skýringar ber að taka það fram að með frumvarpinu er lagt til að fækka flokkum starfsemi sem háð er útgáfu starfsleyfa eða er skráningarskyld samkvæmt viðaukum nr. IV og V við lög um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Þetta er um leið tilraun til þess að einfalda regluverk eða afgreiðslu slíkra leyfa og sem varða ýmiss konar starfsemi. Nefndin telur að best fari á því að eftirlit fari fram sem næst starfsemi hverju sinni en hlutverk stofnana ríkisins sé að huga að samræmingu og veita aðstoð þegar með þarf. Þar með er verið að huga að því hvernig þekking í nærumhverfi nýtist sem best, samskipti við stjórnvöld og upplýsingagjöf séu sem aðgengilegust og atvinnustarfsemi búi við sambærilegar aðstæður óháð staðsetningu um landið. Þá telur nefndin einnig að við endurskoðunina eigi að stefna að því að auka veg rafrænnar stjórnsýslu sem mest. Nefndin telur engu að síður skynsamlegt að gera ákveðnar breytingar sem frumvarpið leggur til í trausti þess að heildarendurskoðun fari fram og það verði horft til þeirra sjónarmiða sem fram koma í nefndaráliti þessu um fyrirkomulag eftirlits.

Það er hér kafli sem heitir Breytingar á viðauka IV. Við meðferð málsins fyrir nefndinni var einkum fjallað um niðurfellingu starfsleyfis- og skráningarskyldu fyrir 41 flokk starfsemi við sameiningu viðauka IV og V við lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, samanber 12. gr. frumvarpsins. Felur framangreind breyting í sér töluverða fækkun á flokkum starfsemi sem krefst útgáfu starfsleyfa.

Hún er sem sagt skráningarskyld en krefst ekki endilega útgáfu starfsleyfa. Í minnisblaði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins kemur fram að hvorki sé verið að gera breytingu á þeirri skyldu rekstraraðila að uppfylla lög um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerðir sem samkvæmt þeim eru settar, né breytingar á eftirliti heilbrigðisnefnda sveitarfélaga.

Nefndin áréttar að frumvarp þetta er liður í átaki ríkisstjórnarinnar að einfalda regluverk í þágu atvinnulífs og almennings. Nefndin tekur undir það að breytingin verði til einföldunar og auki skilvirkni að sækja um starfsleyfi á einum stað og að starfsemin geti verið háð eftirliti og fleirum en einum aðila. Í því samhengi verði jafnframt að tryggja að stjórnvöld geti miðlað upplýsingum sín á milli um viðkomandi starfsemi, hvort sem starfsleyfið verði síðan háð samþykki annarra eftirlitsaðila eða ekki. Hins vegar er ljóst að fram hafa komið ákveðnar efasemdir um það hvort fyrirliggjandi frumvarp nái umræddu markmiði ríkisstjórnarinnar og hvort tilefni sé til að vinna með nánari hætti þann hluta málsins sem snýr að niðurfellingu starfsleyfis- og skráningarskyldu.

Að vissu leyti getur nefndin tekið undir að í greinargerð frumvarpsins er þörf á frekari rökstuðningi, og nánari greiningu og mati á því að fækka og/eða sameina flokka sem og nánara mati á því hver séu kostnaðaráhrifin. Þannig er til að mynda óljóst hvaða áhrif það hefur að fella niður umrædda flokka, hver sé fjöldi þeirra fyrirtækja sem heilbrigðisnefndir hafa eftirlit með á grundvelli þeirra flokka sem lagt er til að fella niður, hvers konar starfsemi er um að ræða og þess háttar. Enn fremur þurfi að tryggja að löggjöfin sé með þeim hætti að hún geti mætt þeirri þróun sem verður á atvinnulífinu. Nefndin telur, líkt og áður segir, æskilegt að framangreint mat fari fram við yfirstandandi heildarendurskoðun laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Með hliðsjón af framangreindu leggur nefndin til breytingar á 12. gr. frumvarpsins. Þannig verði viðaukar IV og V áfram sameinaðir, en við 12. gr. verði bætt við að nýju þeirri starfsemi flokka, sem eru samtals 26 flokkar, sem fyrirhugað var að fella niður, starfsleyfis- og skráningarskyldu fyrir, að undanskildum nokkrum flokkum; sögunarmyllur, biðstöðvar leigubifreiða, bið- og endastöðvar strætisvagna og fleira. Ég vísa einfaldlega til nefndarálitsins, vilji menn kynna sér það betur.

Nefndin felur ráðuneytinu að taka hinn sameinaða IV. viðauka til frekari vinnslu með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum og þeim umsögnum sem borist hafa um málið. Í ljósi þeirrar breytingar sem lögð er til á 12. gr. frumvarpsins er lagt til að fella brott 15. gr. frumvarpsins. Þar til endurskoðun á lögunum er lokið er að mati nefndarinnar þó mikilvægt að verkefnaskipting stjórnvalda við útgáfu starfsleyfa verði nægilega skýr. Þannig mun verkefnaskipting fara fram samkvæmt viðaukum I, II og IV en viðauki III geymir lista yfir starfsemi sem skal hafa starfsleyfi fyrir með sérstökum efnisákvæðum, samanber IV. kafla laganna, og mun því ekki kveða á um skiptingu á útgáfu starfsleyfis milli heilbrigðisnefnda og Umhverfisstofnunar.

Í kafla um aðra sambærilega starfsemi segir:

Í 12. gr. frumvarpsins er jafnframt lagt til að safnliðir um ótilgreinda starfsemi verði felldir á brott. Í umsögnum kom fram að sú breyting gerði það að verkum að ýmis starfsemi yrði eftirlitslaus ásamt því að skapa óvissu um hvort tiltekin starfsemi skuli háð eftirliti eða ekki. Nefndin bendir á að framangreindri breytingu hafi verið ætlað að auka skýrleika laganna en telur í samræmi við fram komin sjónarmið að frekari vinnu þurfi til að ná því markmiði. Nefndin leggur því til að safnliður um aðra sambærilega starfsemi verði hluti af IV. viðauka og bendir í því samhengi á að ákvörðun heilbrigðisnefndar um útgáfu á starfsleyfi fyrir aðra sambærilega starfsemi er stjórnvaldsákvörðun sem er kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála samkvæmt 65. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Nefndin beinir því samt sem áður til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins að tilgreindur safnliður verði tekinn til skoðunar við heildarendurskoðun á lögunum.

Nefndin leggur einfaldlega til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi tveimur breytingum: Það er í fyrsta lagi breytt tilvísun, sem ég ætla ekki að orðfæra hér, og í öðru lagi að 12. gr. orðist svo:

„Viðauki IV með lögunum, ásamt fyrirsögn, orðast svo:

Starfsemi sem heilbrigðisnefnd gefur út starfsleyfi fyrir.“

Síðan kemur listi með 120 tegundum starfsleyfa, eða öllu heldur atvinnustarfsemi sem er þá starfsleyfisskyld. Ég endurtek: Þetta eru 120 tegundir, sem ég ætla ekki að fara hér yfir og vísa til nefndarálits.

Þá er það niðurstaðan. Hv. þingmenn Bergþór Ólafsson, Guðjón S. Brjánsson og Hanna Katrín Friðriksson skrifa undir álit þetta með fyrirvara. Karl Gauti Hjaltason var fjarverandi við afgreiðslu málsins þannig að hér eru uppfærðir hv. þingmenn Bergþór Ólafsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Ari Trausti Guðmundsson, Guðjón S. Brjánsson, Hanna Katrín Friðriksson, Jón Gunnarsson, Líneik Anna Sævarsdóttir og Vilhjálmur Árnason.