150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[10:23]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við greiðum hér atkvæði um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir, svokölluð PPP-verkefni. Við í Miðflokknum viljum halda því til haga og gagnrýna að hér séu til meðferðar fleiri en eitt frumvarp í þinginu núna undir þinglok þar sem í öllum tilvikum er verið að leggja til eina eða aðra útfærslu á veggjöldum. Við teljum að skynsamlegt og nauðsynlegt hefði verið að tillaga að útfærslu hefði legið fyrir frá fjármálaráðherra og samgönguráðherra áður en þessar ákvarðanir eru teknar. Við í Miðflokknum erum fylgjandi öllum þeim framkvæmdum sem þarna eru tilgreindar, en til að mynda er í þessu máli horft til þess að hluti fjármögnunar eigi sér stað með gjaldtöku. Það er alveg sjónarmið út af fyrir sig. En á sama tíma er horft til þess að gjaldtaka sem ætluð var innan samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins verði leyst með umbreytingu ríkiseigna. Við í þingflokki Miðflokksins greiðum ekki atkvæði um þetta mál að svo stöddu en ítrekum að nauðsynlegt er að línur verið lagðar um hvernig útfærslu gjaldtöku verði háttað til framtíðar.