150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

lyfjalög.

390. mál
[10:45]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Ólafs Þórs Gunnarssonar sem sagði að lyf væru ekki almenn neysluvara og segi: Þess vegna er ekki boðlegt að vinna þetta með þessum hætti. Hér eru 108 lagagreinar sem verið er að endurskoða. Þetta eru lög frá 1994. Hér er um að ræða heildarlög upp á 108 greinar sem eru unnin með ófullnægjandi hætti. Fram komu 27 athugasemdir, m.a. frá embætti landlæknis, sem voru það alvarlegar að við verðum að taka tillit til þeirra. En meiri hlutinn var því miður ekki tilbúinn til þess á þeim eina og hálfa klukkutíma sem gefinn var til umræðu milli nefndarmanna um málið. Því miður er þetta óboðlegt. Breytingartillögur komu fram eftir að málið var tekið úr velferðarnefnd. Ég var á nefndarálitinu með fyrirvara, einfaldlega vegna þess að ég gat ekki tekið mig af nefndarálitinu eftir að það var afgreitt út eftir að (Forseti hringir.) fleiri umsagnir komu inn. Þetta eru óboðleg vinnubrögð, herra forseti, (Forseti hringir.) og við munum ekki greiða þessu atkvæði.