150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

loftslagsmál.

718. mál
[11:33]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Fyrir helgi, við 2. umr. um þetta mál, 718. mál þingsins, loftlagsmálin, tókst mér, sem staðgengli fyrir hv. framsögumann Kolbein Óttarsson Proppé, í ræðunni stuttu þar sem ég gerði grein fyrir nefndaráliti meiri hluta hv. umhverfis- og samgöngunefndar, að vísa í rangt þingskjal, þ.e. ekki í þskj. 1752 sem á við málið. Ég biðst afsökunar á þessum mistökum sem enginn tók reyndar eftir umrætt kvöld. [Hlátur í þingsal.] Þetta var síðasta mál á dagskrá á þessum langa föstudegi, skilningarvitin dofin og við hæstv. forseti einir í salnum. Ég tel þó að þetta hafi ekki komið að alvarlegri sök og veit að ég mun greiða atkvæði á eftir með öll skilningarvitin opin og málið kemst í höfn.