150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

loftslagsmál.

718. mál
[11:35]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Í þessu máli þar sem fjallað er um skuldbindingar og losunarheimildir munum við í Miðflokknum sitja hjá við atkvæðagreiðsluna. Meginathugasemdir okkar hafa ítrekað komið fram í umræðu um þetta mál. Í fyrsta lagi þykir okkur skynsamlegt að ganga aðeins hægar um þær dyr að innleiða regluverk sem leggur viðbótarkostnað á atvinnulífið. Þetta mál hefur m.a. verið rökstutt með því að hér sé um töluverða einföldun að ræða hvað varðar utanumhald fyrirtækja og kerfisins í heild sinni. En einföldunin er svo mikil að ráða þarf töluvert af starfsfólki til opinberra stofnana, Umhverfisstofnunar, Skógræktarinnar og Landgræðslunnar, svo að eitthvað sé nefnt. Við það gerum við alvarlegar athugasemdir.