Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

breyting á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna .

715. mál
[12:55]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst þetta áhugaverð nálgun hjá hv. þingmanni. Í fyrsta lagi verð ég að segja að það er búið að vinna þetta mál í dágóðan tíma. Við þekkjum öll umræðuna. Við þekkjum að það hefur verið ósk og krafa, sérstaklega bænda, til langs tíma að utan um þetta verði náð. Hér er ekki verið að velta fyrir sér jarðamálunum og hvaðan fólk kemur. Það skiptir engu máli hvort við erum að tala um íslenska auðmenn, ef við getum orðað það sem svo, sem ætla að safna að sér jörðum eða fólk sem kemur erlendis frá. Hins vegar þarf þetta að standast allan rétt sem við lútum hér á landi eins og í Evrópu. Ég kann ekki að meta þessar aðdróttanir um að viðkomandi þurfi að hafa tengsl við ráðherra til að fá málum sínum framgengt og að hér sé einhver biðlistamenning. Það er ekkert óalgengt að innan ráðuneyta eins og annars staðar sé tiltekinn afgreiðslufrestur. Hér eru lagðar til að hámarki fjórar vikur í afgreiðslufrest ef mál þarf að koma til ráðherra. Þetta eru almennar reglur og það er verið að tala um örfá atvik á hverju ári. Það má alveg búast við að það séu í kringum 40, kannski 50, mál á ári eins og rakið er í frumvarpinu. Ég held, virðulegi forseti, að ég þurfi ekkert að útlista það neitt nánar hér hvernig þetta er. Það er mjög vel útskýrt. Það er mjög vel farið yfir þetta enda held ég að í litlu landi eins og Íslandi sjáum við ekki fyrir okkur að ráðherra kæmist upp með eitthvað slíkt og ég hef enga ástæðu til að ætla það. Ef hins vegar einhverjir aðrir komast að því einhvern tímann seinna að önnur leið sé betri og færari þá væntanlega verða gerðar breytingar í því efni. En þetta er lagt til hér og það er vegna þess að við þurfum að auka yfirsýn yfir jarðaviðskipti og við þurfum að auka gagnsæi, eins og hv. þingmaður veit. Hér erum við að veita stjórnvöldum ákveðið stýritæki til þess. Þannig að mér finnst við vera að gera vel og ég held að þessu frumvarpi verði vel tekið hjá allflestum aðilum, alla vega geri ég ráð fyrir því. Eflaust verða einhverjir minna sáttir eins og gengur og gerist með alla lagasetningu.