Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

breyting á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna .

715. mál
[12:57]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er ekki endilega viss um að allir bændur á Íslandi séu sáttir við þetta því að oft á tíðum snýst þetta líka um möguleika þeirra til að selja jarðir sínar, jarðir sem þeir hafa ekki átt möguleika á að fá einhverja fjármuni fyrir áður. Alla vega hafa ýmsir bændur, bæði á Suðurlandi og Austurlandi, tjáð mér að þeir óttist að einhverjar girðingar verði settar sem minnki möguleika þeirra á að fá andvirði jarða sinna í fasteignakaupum og jarðakaupum. En gott og vel.

Það kemur ekkert á óvart að Vinstri græn skuli beita sér fyrir því að málið skuli tekið inn í ráðuneyti. Það kemur mér ekkert á óvart og ég bara virði það við hv. þingmann, sem er þingflokksformaður Vinstri grænna. Það sem kemur mér á óvart er að Sjálfstæðisflokkurinn skuli ljá máls á þessu enda er það svo að fáir þingmenn þess flokks hafa tjáð sig um málið af því að þessi þáttur er eitthvað sem flokkurinn hefur barist gegn, þ.e. þessi biðlistamenning, að setja inn að það þurfi að auka umsvif ráðuneyta í eðlilegum fasteignaviðskiptum á milli einstaklinga og lögaðila. Hvers konar vitleysa er þetta? Að almennar reglur geti ekki dugað um það heldur þurfi að fara einhverja fjallabaksleið inn í ráðuneytin til að fá vilyrði ráðherra. Auðvitað mun það verða þannig. Það mun á endanum sýna sig að það skiptir máli í hvaða flokki ráðherrann er og með hvaða tengsl. Það er bara þessi íslenski veruleiki sem hefur mjög vel kristallast á þessu kjörtímabili, hvort sem fólki líkar það betur eða verr. Og ég bara vara við því. Ég vil sjá einfaldar reglur hér. Það sem mér finnst gott í málinu er að það er verið að reyna að setja einhver stærðartakmörk og ég mun koma að því í ræðu minni á eftir. En ég vil vara við þessari biðlistamenningu sem ríkisstjórnin, undir forystu Vinstri grænna og með fullum stuðningi Sjálfstæðisflokksins, er að koma upp hér í tengslum við jarðakaup á landinu.