150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

breyting á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna .

715. mál
[13:23]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég og hv. þingmaður getum verið sammála um að þörf á bættri umgjörð um jarðamál á Íslandi er mikil. Það kemur manni á óvart þegar maður setur sig aðeins inn í þessi mál hvað við höfum í raun verið kærulaus varðandi þennan málaflokk miðað við hve mikið er undir. Auðlindir okkar eru undir og afkoma okkar til framtíðar einnig, þannig að það er mjög mikilvægt að við bætum lagaumgjörðina um málaflokkinn. Þetta frumvarp er skref í þá átt að ná betur utan um taumlausa jarðasöfnun. Hv. þm. Inga Sæland nefndi auðmanninn Ratcliffe, sem verið hefur mikið í fréttum, en hann er ekki sá eini sem hefur verið að safna jörðum hér. Sú samfélagslega umræða sem átt hefur sér stað um jarðamál á Íslandi um langa tíð hefur speglað það svolítið að fólk hefur almennt áhyggjur af þessu. Hluti af þessu máli felur einmitt í sér að sett verði takmörk á það hversu mikið land einstaklingar geta átt, hversu marga hektara lands, og einnig er tekið tillit til auðlinda. Svo er líka mál í hv. atvinnuveganefnd varðandi veiðiréttindi, vatnsréttindi og annað sem við þurfum að huga að, hvað þar er undir.

Varðandi Brexit og breska ríkisborgara er það náttúrlega í skoðun vegna þess að útganga Breta er nýorðin að veruleika. Það er nokkuð sem haldið verður áfram að vinna með varðandi stöðu þeirra gagnvart EES almennt, ekki bara þessu máli.