Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

breyting á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna .

715. mál
[13:33]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Þetta er stórt og mikið mál. Þetta er algjört grundvallarmál sem við ræðum hér. Þetta snýst um pólitík sem varðar eignaryfirráð yfir jörðum og þá samhliða þeim auðlindum sem þeim fylgja. Það er ekki þannig að ekki hafi áður verið fjallað um þessi mál. Það var m.a. gert á sínum tíma í skýrslu nefndar, að mig minnir frá árinu 2012, undir forystu Katrínar Olgu Jóhannesdóttur sem var skipuð af hálfu innanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins í þeirri ríkisstjórn. Síðan hafa verið skipaðar nefndir sem hafa fjallað um nákvæmlega þetta, eignasamþjöppun, hvaða áhrif hún hefur á nýtingu jarðanna, almannahagsmuni og fleira. En það hefur í rauninni lítið verið gert nákvæmlega með þær niðurstöður.

Við sjáum það alveg þegar við hlustum á umræður stjórnarþingmanna, m.a. hér, að þó að menn vilji ekki viðurkenna það er auðvitað undirliggjandi óttinn við annars vegar útlendinga, því að hvort sem mönnum líkar það betur eða verr hafa útlendingar verið nefndir til sögunnar, og hins vegar auðmenn. En hvergi er verið að skilgreina nákvæmlega þessa markalínu, hvaða auðmenn nákvæmlega er átt við eða hvers konar þáttum menn vilja leita að til að leysa þetta. Grundvallaratriðin og markmiðin með málinu eru mjög göfug. Það er ekkert hægt að efast um það. En umfjöllunin er ekki nógu mikil. Það er verið að keyra þetta mál í gegn, þetta grundvallarmál sem snertir almannahagsmuni.

Ég er þeirrar skoðunar að gjalda eigi varhuga við öllum reglum sem takmarka meginregluna um frjáls viðskipti eða þjóna ekki almannahagsmunum vegna atvika eða aðstæðna. Við verðum að stíga varlega til jarðar þegar stjórnvöld ætla, eins og núna, að setja ákveðnar takmarkanir á eignarrétt og um leið ráðstöfunarrétt manna yfir jörðum sínum og eignum. Það er ekki þar með sagt að samhliða þessu séu ekki hættur. Samþjöppun eignarhalds fylgja ákveðnar hættur og þær geta verið mjög miklar á sviði landakaupa eins og á öðrum sviðum. Við vitum hvað samþjöppun þýðir. Samþjöppun þýðir að dregið getur úr samkeppni, hún getur hamlað frumkvöðlakrafti og nýsköpunar- og sprotastarfi. Við sjáum það líka á öðrum sviðum. Að mínu mati er þess virði að við getum sett almennar reglur sem verja þá almannahagsmuni sem tengjast samþjöppuninni, sem tengjast því að reyna að verja þjóðina gagnvart neikvæðum áhrifum samþjöppunar á landi. Þá segi ég: Almennar reglur sem þjóna almannahagsmunum. Þess vegna er skynsamlegt að skoða stærðartakmarkanir á því sem einstaklingar og lögaðilar geta safnað. Því að mikil samþjöppun og yfirráð yfir jörðum geta einmitt farið gegn almannahagsmunum eins og ég hef sagt áður.

Hvert getum við litið? Við getum t.d. litið frá landnýtingunni yfir í nýtingu sjávarauðlindarinnar. Ég dreg ekki dul á það og ég hef margítrekað hér að við þurfum að skerpa á gegnsæi í eignarhaldi í sjávarútvegi. Við þurfum að skerpa enn frekar á því hversu mikið eignarhaldið getur verið hjá hverjum og einum einstaklingi og lögaðila í sjávarútvegi. Það sama gildir um jarðirnar. Mér finnst ekki óeðlilegt að taka mark á þessu og hafa hliðsjón af því þegar við skoðum hvað einstakir aðilar geta haft umráð yfir mörgum jörðum, eins og er í raun að einhverju leyti verið að reyna að ná í gegn hér. En að mínu mati vega þær reglur sem verið er að setja í frumvarpinu að almannahagsmunum. Þrátt fyrir að við getum verið sammála um þá almennu reglu að við viljum koma í veg fyrir samþjöppun eignarhalds á jörðum eru aðrar reglur sem fylgja þessu frumvarpi sem að mínu mati ganga í berhögg við þennan megintilgang.

Í fyrsta lagi viljum við í Viðreisn almennar reglur um eignarhald á jörðum og við viljum líka að reglurnar séu þannig að þær mismuni ekki eftir þjóðerni. Hér hafa menn sagt að ég hafi verið að vega að mönnum í stjórnarliðinu, að þeir væru að segja að þessu væri beint að útlendingum. Við vitum alveg hver grunnurinn er, eins og ég sagði áðan áttum við okkur á hver hvatinn er bara við að hlusta á ræðurnar. Hvatinn er sá að of margir útlendingar séu að eignast jarðirnar í staðinn fyrir að hann sé sá að nálgast þetta á almennan hátt. Almenni hátturinn er sá að við getum frekar sett takmörk á eignarhald landareigna og við höfum reynslu af því í sjávarútvegi. En við þurfum þá um leið að setja þessar almennu reglur um það hvernig við takmörkum eignarréttinn og yfirráðaréttinn. Við megum ekki gleyma því að hvort sem útlendingar eða Íslendingar safna að sér jörðum er skipulagsvaldið eftir sem áður hjá Alþingi, umhverfisreglurnar eru settar af Alþingi og ýmsar reglur, eins og varðandi rétt almennings til umferðar um jarðeignirnar, eru enn fremur í höndum þingsins.

Ég vil benda á að fulltrúi okkar í hv. allsherjar- og menntamálanefnd, hv. þm. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, hefur dregið þetta afar vel saman, bæði í greinum og í athugasemdum við málið. Það er alveg skýrt að við í Viðreisn viljum að settar verði almennar reglur, að málið verði unnið betur og við erum reiðubúin til að skuldbinda okkur til að vinna málið betur, til að taka af mestu agnúana því að málið er svo umfangsmikið, það varðar svo mikla almannahagsmuni. Eins og við setjum það fram núna er frekari áhætta fólgin í því að samþykkja málið og ég vara eindregið við því. Í andsvari áðan varaði ég m.a. við ráðherraræðinu, þessari biðlistamenningu sem að mestu var búið að útrýma hér á tíunda áratug síðustu aldar og í byrjun þessarar. Þá var reynt að koma út ráðherraræðinu og biðlistamenningunni sem varðar stjórnvaldsákvarðanir. Og mér finnst erfitt að sjá það endurvakið hér.

Þess vegna vil ég draga fram að langflestar umsagnir við málið snúast ekki endilega um að ekki eigi að setja reglur heldur miklu frekar um að málið sé vanbúið. Málið hefur ekki fengið nægilega skoðun eins og það er sett fram hér. Það er merkilegt hversu lítið tillit hefur verið tekið til niðurstaðna annarra nefnda sem hafa verið settar til að fjalla um málið. Það ber keim af einhverju stressi og jafnvel einhverri innansveitarkroniku innan Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs þegar kemur að þessu máli.

Þær eru ýmsar athugasemdirnar sem hægt er að draga fram en ég vil fyrst og fremst segja að málið þarf að vinna mun betur. Það þarf að draga fram þær almennu reglur sem ég held að við getum öll verið sammála um. Það er hægt að sameinast um hámark jarða sem hver og einn einstaklingur og lögaðili getur átt. Það má náttúrlega ekki ganga gegn EES-samningnum og ekki mega skilyrði tengjast ríkisborgararéttinum á einhvern hátt. Það má alveg efast um að nægilega skýrt sé að kveðið hér. Mér finnst eins og verið sé að fara fjallabaksleið til að reyna að útiloka að útlendingar eða tiltekinn hópur einstaklinga hér innan lands eignist jarðir.

Meginmálið er auðvitað hvernig við höldum áfram að nýta jarðirnar. Þegar við lesum frumvarpið er verið að tala um nýtingu jarða, landrækt og jarðrækt sem þarf að efla, styrkja og bæta og við tökum undir það. En það er eins og frumvarpshöfundar hafi gleymt mikilvægri atvinnugrein sem er núna í ákveðinni deyfð, þ.e. ferðaþjónustunni. Það er lykilatriði fyrir bændur víða um landið að hafa hana og reyna að byggja hana upp. Í því sambandi vil ég benda á umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar en ekki síður það sem Bændasamtökin hafa sett fram. Þau leggja m.a. til að ákvörðunarvald og rannsókn sé á hendi sveitarfélaga en ekki ráðherra. Mér finnst það mjög skiljanleg athugasemd. Þau segja jafnframt að ráðherra sé falið of víðtækt vald til að ákveða hvort stór hluti viðskipta með jarðir fái að eiga sér stað. Ég held að þetta sé eitthvað sem við hljótum að taka tillit til og fara betur yfir. Þar eru líka settar fram efasemdir um hvort ákvæði í frumvarpinu geti stangast á við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, 72. gr. eins og hún hefur verið túlkuð samkvæmt Mannréttindadómstól Evrópu. Athugasemdirnar við frumvarpið eru því margar og þær vega þungt.

Að mínu mati leikur mikill vafi á því hvort eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar séu brotin hér eða ekki. Þegar málið er þannig útbúið finnst mér þess virði að við förum betur yfir það og ekki síður með tilliti til þess hversu mikið vald ráðherra fær hverju sinni. Menn reyna að gera lítið úr því og segja að þetta séu kannski ekki nema nokkur mál. Þetta geta verið allt upp í 50 mál á ári. Það getur komið til kasta ráðherra 40–50 sinnum á ári, eins og kemur fram í sumum umsögnum. Þetta er ekki bara einhver málamyndagjörningur sem ríkisstjórnarflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Vinstri græn, eru að beita sér fyrir. Þetta er ekki einhver málamyndagjörningur heldur stórt og mikið mál sem snýr að því að verið er að auka ráðherraræði og hugsanlega er verið að fara gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.

Ég biðla því til stjórnarmeirihlutans: Takið ykkur tíma, ekki keyra þetta í gegn. Þetta er ekki eitthvert Covid-mál. Það væri sjálfsagt að reyna að rýmka til ef þetta snerti hagsmuni út af kórónuveirunni. En þetta mál er ekki þess eðlis. Við vitum alveg að það er ákveðinn þrýstingur og það er ákveðin ólga, sérstaklega innan eins stjórnarflokksins, hjá Vinstri grænum. Þau segja að það verði að keyra þetta í gegn því að það sé betra að hafa þetta mál út úr myndinni áður en næsta þing hefst. Fyrir vikið sitjum við hugsanlega uppi með mjög löskuð heildarlög um eignaskipti á jörðum. Það er eiginlega algerlega óboðlegt núna þegar við höfum bæði tækin og tólin. Það er ekkert sem liggur á. Enginn úr stjórnarmeirihlutanum getur bent okkur á hvað það er, hvaða tímasetningar. Hvað er það nákvæmlega sem liggur á annað en að það er þrýstingur og ólga innan eins stjórnarflokksins? Á meðan sitja hinir tveir stjórnarflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, prúðir hjá og ætla að láta það yfir sig ganga að auka ráðherraræði og fara um leið hugsanlega gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Mér finnst það miður og ég verð að lýsa yfir miklum vonbrigðum mínum með þessa keyrslu og þann mikla þrýsting sem verið er að beita Alþingi hér á lokasprettinum.