150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

breyting á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna .

715. mál
[14:02]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka ræðuna. Mig langar að draga fram að ég er eindregið sammála hv. þingmanni varðandi það að í frumvarpinu felist of mikil miðstýring. Það er verið að stefna að allt of mikilli miðstýringu um leið og ég tek undir það sem hv. þingmaður sagði um að við verðum að spyrna við fótum varðandi samþjöppun á auðlindum, hvort sem það er í sjávarútvegi eða á öðrum sviðum sem tengjast auðlindum og auðlindanýtingu. Þá verða allar slíkar takmarkanir að byggjast á því að þær tengist almannahagsmunum. Þar skiptir náttúrlega mestu máli að koma með skýrt og fortakslaust ákvæði um auðlindir í stjórnarskrá. Að því er nú unnið en því miður er það ákvæði, að mínu mati, sem forsætisráðherra og ríkisstjórnarflokkarnir auk Miðflokksins eru að vinna að ekki þannig úr garði gert að það geti stuðlað að því að vernda almannahagsmuni. En gott og vel.

Mig langar að spyrja hv. þingmann. Fyrir árið 2008, og fyrir hrun, voru tiltekin félög í eigu Íslendinga sem söfnuðu að sér jörðum og þá var ekkert rætt um að takmarka eða setja almennar reglur um það. Síðan komu útlendingar. Það er auðvitað undirliggjandi, hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Það sem mér finnst skipta mestu máli og ég reyndi að draga fram áðan er að við þurfum að setja almennar reglur í þágu almannahagsmuna varðandi aðilaskipti á jörðum. Ég vil að þær séu sem frjálsastar en þær er hægt að takmarka á grunni í þágu almannahagsmuna. Telur hv. þingmaður, og er hann sammála mér í því, að hagsmunir almennings felist fyrst og fremst í því hvernig landið er nýtt og að við gætum skilgreint enn betur aðgang almennings að sjálfu landinu? Telur hann þeim hagsmunum vel borgið í þessu frumvarpi eða telur hann í ljósi betri skoðunar á málinu að þar séu tækifæri fyrir okkur til að gera betur?