Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

breyting á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna .

715. mál
[14:04]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa ágætu spurningu. Ég tek undir það sem hún segir og hef svo sem kannski ekki miklu við það að bæta. Við erum vön því, held ég, alla vega allir sem eru á mínum aldri, að geta farið nánast hvert á land sem er, stoppa, ganga upp í hlíð og fara í berjamó. Við erum vön því að geta lagst út í skóg og í kjarrið og teygað að okkur ilminn og upplifað þetta sem landið okkar. Við erum vön því að þetta sé landið okkar og að við höfum frjálsa för um það. Þetta er mjög mikilvæg tilfinning sem við þurfum að standa vörð um og þetta eru mikilsverð réttindi sem við þurfum að standa vörð um, að við höfum öll frjálsa för um landið. Auðvitað er þessi aðgangur mikilsverðir hagsmunir almennings.

Hv. þingmaður vék aðeins að því hvort það örli á einhvers konar fordómum í garð útlendinga í þessari lagasetningu. Ég skal ekki segja til um það og ég er alveg sannfærður um að hið mikla jarðabrask sem átti sér stað fyrir hrun hefði haft gott af einhvers konar löggjöf og eftirliti. Það eru ekki öll kurl komin til grafar með það hvernig þeim viðskiptum öllum var háttað og þau þola alveg áreiðanlega ekki öll alveg stífustu kröfur um viðskipti. Ég held því að það megi einu gilda hverrar þjóðar viðkomandi er. Aðalatriðið er að það safnist ekki um of á fárra hendur, auðlindir og land.