Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

breyting á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna .

715. mál
[14:07]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið. Ég held að stóra málið sé einmitt fyrst og fremst hvernig við nýtum jörðina, nýtingin á sjálfu jarðnæðinu er það sem skiptir okkur máli og mér finnst að við eigum eftir að taka nákvæmlega þá umræðu. Ég benti á það í ræðu minni áðan að fókusinn hefur jafnvel ekki verið hafður nægilega mikið á hinum hefðbundna landbúnaði. Það hefði mátt vera betur gert í frumvarpinu. Og ekki síður á hina nýju grein bænda sem er ferðaþjónustan. Það hefði þurft að fara miklu betur yfir það svið til þess að reyna að nýta þennan íslenska raunveruleika sem er núna í dag varðandi landið okkar og svo þessa almannahagsmuni sem felast í almennum reglum um samþjöppun valds og eigna á jörðum, sem við erum öll sammála um. Mér finnst skorta á greiningu á því hvernig við nýtum jarðirnar því að það er í rauninni stóra málið okkar, ekki síst í umhverfisverndarlegu tilliti. Mér finnst vanta umhverfisverndina og umhverfisrökin inn í málið eins og það er lagt upp af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Ég er ekki í allsherjar- og menntamálanefnd en hv. þingmaður er það og eftir að hafa lesið umsagnir sem eru 80% frekar neikvæðar þá vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann hefði treyst sér til að klára málið, segja við ríkisstjórnina: Við getum klárað málið fyrir jól eða fyrir einhverja tiltekna dagsetningu en á þeim forsendum að fara betur yfir þær athugasemdir sem voru settar fram. Ég hef þá trú að það sé fleira sem sameinar okkur hér í þingsal í þeim málum. Það er ekki verið að leggja sig nægilega fram til að ná samþættum vilja löggjafans. Ég er nokkuð viss um að það væri hægt að gera með örlitlum meiri tíma og örlítið betri og vandaðri vinnu.