Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

breyting á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna .

715. mál
[14:09]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég er alveg sammála þessu og já, ég held að ég hefði treyst mér til að afgreiða málið, segjum kannski fyrir næstu jól, ég ætla þó ekki að negla niður einhverja dagsetningu með það. En það hefði þurft að nálgast málið úr ótal fleiri áttum. Hv. þingmaður nefnir umhverfisvernd, náttúruvernd, sem á náttúrlega að vera sjálfsögð nálgun í öllum málum og líka út frá hefðbundnum landnytjum, hefðbundnum landbúnaði og ótal hliðum. Málið er það að þetta mál verður til í kringum áhyggjur af því að tiltekinn maður sé að eignast svo mikið land og hann sé útlendingur og má þá einu gilda þó að sá maður hafi í rauninni verið til fyrirmyndar um það hvernig hann ver því landi sem hann hefur keypt og lítið upp á hann að klaga. En hann hefur verið mjög stórtækur í þessum kaupum og það hefur vakið fólk til umhugsunar um hvort þetta sé sniðugt vegna þess að hann muni einn góðan veðurdag falla frá og eigi svo afkomendur og þeir eigi afkomendur og allt í einu sé þetta land í eigu fólks sem hefur engin tengsl við landið og ber engar tilfinningar til þess og veit ekkert hvað það á að gera við það. Kannski er slíkt í gangi nú þegar en í því tilfelli eru það innlendir erfingjar lands, jafnvel 200 manns sem eiga saman einhverja bújörð einhvers staðar og vita ekkert hvað þeir eiga að gera við hana. Í slíkum tilfellum er gott að hægt sé að virkja markaðsöflin til þess að búa til verðmæti úr slíku landi sem kannski er verðlaust nú þegar.