Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

breyting á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna .

715. mál
[14:23]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni hans andsvar hér. Ég var að rekja nokkra punkta til viðbótar sem ég vildi að horft yrði til og þar af leiðandi segi ég: Þetta er ágætt fyrsta skref. Ég hef upplýsingar um það að sá starfshópur sem þar er nefndur hefur þegar hafið störf um áframhaldandi vinnu við þetta mál.

Virðulegi forseti. Frá lagabreytingunni 2004, ef ég man rétt, þegar jarðalögum er breytt, ég hafði annað hlutverk þá, var í starfi sem formaður Bændasamtaka Íslands, vorum við ósammála meiri hluta þingsins í þeirri leið sem þá var valin. Okkur fannst verið að losa um of mikið af skrúfum. Ég held að það hafi reynst algerlega rétt.

Núna erum við þá árið 2020 í fyrsta sinn að reyna að verða sammála um hvaða stilliskrúfur við eigum að hafa. Ég ætla ekkert að segja að málið hefði orðið neitt verra ef lengri tími hefði verið gefinn en á þessum tímapunkti treysti ég algerlega þeim meiri hluta sem leggur nefndarálitið fram til að hafa vegið það og metið. Ég ætla fyrir mitt leyti ekki að gefa út það vottorð að það sé málinu til stórkostlegs batnaðar að það bíði enn um sinn, en vil þó undirstrika þá efnisþætti sem ég taldi upp í ræðu minni og önnur þau atriði og nefna þann starfshóp sem þegar hefur hafið störf. Ég bind miklar vonir við að við komumst áfram í að bæta lagaumgjörð jarðaviðskipta á Íslandi.