Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

breyting á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna .

715. mál
[14:27]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Fjallið tók jóðsótt og það fæddist lítil mús. Það er kannski það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég renndi yfir frumvarpið sem hér liggur fyrir af hálfu ríkisstjórnarflokkanna um breytingu á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna. Ég held að ég geti fullyrt að menn hafi búist við einhverju meira. Ég held að ég geti fullyrt það, herra forseti. Menn bjuggust við því að landasöfnun auðmanna hér á landi yrðu settar einhverjar skorður. Svo er ekki í þessu frumvarpi, ég held að ég geti fullyrt það. Sérstaklega á það ekki við um aðila innan EES-svæðisins. Að vísu eru settar frekari girðingar og skilgreind betur aðkoma og kaup aðila utan EES, þar eru settar töluverðar takmarkanir, en þegar kemur að EES-borgurum, þar á meðal Íslendingum og ætla ég alls ekki að gera greinarmun á því, þá svíður fólki og hefur áhyggjur af þessari jarðasöfnun einstakra aðila, oft svokallaðra auðmanna, þar sem þeir safna heilu dölunum; ég ætla ekki að segja sýslunum en alla vega dölunum. Það getur komið í veg fyrir eðlileg not, t.d. í landbúnaði eða öðru, og það sem verra er er að með þessum kaupum eignast menn auðvitað öll gæði á viðkomandi landi, eins og fallorkuna, heitt vatn, ef það skyldi finnast, veiðirétt, námarétt o.s.frv., eins og mönnum er kunnugt. Í frumvarpinu eru þessu settar afar takmarkaðar skorður. Og ég sakna þess.

Frumvarpið sjálft er ágætt fyrsta skref eins og hv. þm. Haraldur Benediktsson orðaði það. En menn hafa ekki kjark til að setja þessu frekari skorður en raun ber vitni í frumvarpinu. Menn sýna ekki djörfung gagnvart Evrópusambandinu, jafnvel þótt fyrir liggi, frú forseti, að mörg hinna Norðurlandanna, t.d. Danmörk, setja jarðasöfnun og jarðakaupum allra aðila, og þá alveg án tillits til þjóðernis, skorður hvað varðar búsetu. Gert er að skilyrði að kaupin séu tengd búsetu fari þau upp fyrir einhver stærðarmörk. Ríkisstjórnin hefur ekki kjark (Gripið fram í.) til að ganga þessa leið. Fyrsta skref? Já, vonandi kemur þá eitthvað frekar um þetta. Ég held að margir óttist það og hv. þm. Haraldur Benediktsson kom aðeins inn á það að með þessu væru menn smám saman að gerast leiguliðar í eigin föðurlandi, eins og ég orða það. Það er auðvitað hætt við því að hér spretti upp einhvers konar lénsherrar, og þá skiptir ekki máli hvort þeir eru innlendir eða erlendir, og eigi þarna heilu og hálfu sýslurnar og að menn séu undir hæl þeirra hvað varðar nýtingu og alla aðkomu. Þetta er þegar farið að raungerast og eru dæmi til um það. Meginefnið er það að ríkisstjórnin hefur ekki djörfung til að ganga þessa leið. Hún hefur ekki djörfung, hana brestur meira að segja kjark til að fara sömu leið og hin Norðurlöndin, sum hver, til að takmarka uppkaup á landi. Ég sakna þess. Ef þetta er fyrsta skref þá er ég auðvitað ánægður með það að eiga von á einhverju meira.

En ég hef ekki miklar athugasemdir við frumvarpið sjálft, efni þess. Þetta eru aðallega tæknilegar útfærslur og það eina sem ég hef kannski athugasemdir við er að fara þurfi bónleið til ráðherra. Menn þurfa að fara bónleið til ráðherra, aðallega aðilar sem eru utan EES. Ef þeim dettur í hug að kaupa jörð, ef jörð skyldi kalla, sem er stærri en þrír og hálfur hektari þurfa þeir að fara til ráðherra. Ég tek undir með öðrum hv. þingmönnum sem hafa fundið að því að þarna sé verið að búa til einhvers konar ægivald ráðherra og taka það upp að nýju að menn bíði í biðröðum frammi á gangi hjá honum og leiti ásjár. Mér finnst miklu eðlilegra og tek undir það með þeim þingmönnum sem hafa talið að setja ætti almennar takmarkanir og að þær ættu að vera mun þrengri en hér kemur fram, mun þrengri. Ég er kannski ekki búinn að lesa frumvarpið frá orði til orðs en ég held að einhverja 10.000 hektara þurfi til. Ef sá sem er að kaupa jörð á fyrir jörð eða jarðir upp á 10.000 hektara þá þurfi að skoða það eitthvað sérstaklega. Þarna er komið langt út fyrir allt sem venjulegt fólk skilur og langt út fyrir, held ég, það sem við hér í þessu litla landi viljum sjá, að jarðir safnist í miklum mæli á hendur örfárra. Skiptir þá engu máli hverrar þjóðar þeir eru. Auðvitað á að setja skýr mörk fyrir alla. Ég er talsmaður þess og ég sakna þess að það sé ekki gert.

Þetta frumvarp kemur inn með trommuslætti, frú forseti. Það er ekki eins og það komi úr tómarúmi vegna þess að stjórnarþingmenn, sérstaklega úr Framsóknarflokki, hafa flutt nokkrar ályktanir um að tekið sé á þessum málum. Og hver er árangurinn? Árangurinn er þetta frumvarp. Það er mjög vel unnið, mjög ítarlegt, svo ítarlegt að maður þarf sumarið til að kynna sér það ofan í kjölinn, held ég. Þetta eru um 50 bls., þéttskrifaðar, mjög ítarlegt. Þarna er sérfræðikunnáttan greinilega fyrir hendi, fengnir eru færustu sérfræðingar til að ráðleggja ríkisstjórninni en kjarkinn brestur. Ríkisstjórnina brestur kjark. Viljaleysið er algjört. Ekki er reynt að sporna við fjárfestingum erlendra auðmanna hér á landi. Ekki með þessu frumvarpi. Hér er ekki um að ræða afgerandi takmörkun á eignarhaldi auðmanna sem mjög margir hafa verið að kalla eftir. Þarna er ekki verið að svara því kalli. Ég held að það sé rétt að því sé komið á framfæri í ræðu.

Af hverju var t.d. ekki farin sú leið að takmarka rétt EES-borgara til fjárfestingar í landi, eins og gert er annars staðar á Norðurlöndum, sem nauðsynlegt væri til að uppfylla skuldbindingar okkar gagnvart EES-samningnum um frjálsa fólksflutninga, staðfesturétt og til að sinna þjónustustarfsemi? Af hverju var ekki farin sú leið sem Danmörk fer og fleiri Norðurlönd? Af því að ríkisstjórnin hafði ekki djörfung til að ganga þá leið. Þetta frumvarp er meinlaust að mörgu leyti. Það er til framfara varðandi tæknileg atriði eins og t.d. að kaupverð eignar þurfi að koma fram í afsali eða kaupsamningi. Það er auðvitað góð breyting og þörf. Landeignaskrá sem hér er fjallað um er til framfara en henni var komið á laggirnar til að tryggja yfirsýn og samræma opinbera skráningu á landi. Ég set spurningarmerki við þetta með samþykki ráðherra, einhvers konar ráðherraræði. En fyrst og fremst, frú forseti, sakna ég þess að menn þori ekki að stíga þetta skref. Þeir halda sig innan dyra, þora ekki út, brestur kjark. Þetta er dæmi um það. Eftir ákall og eftir ályktanir einstakra stjórnarþingmanna er þetta svarið sem ekkert er.

Ég vil aðeins í lokin taka undir með hv. þm. Haraldi Benediktssyni þegar hann ræddi um skyldur jarðeiganda. Ég tek undir það. Ákveðnar skyldur um viðhald hvíla á fasteignaeigendum sem eiga byggingar og kröfur um að þeir sinni því. Það vantar varðandi jarðeignir. Auðvitað þurfa að vera ákvæði um það að jarðeigendur, sem eiga kannski sumir hverjir margar jarðir núorðið, sinni jörðum sínum, þ.e. viðhaldi girðingum sé þess þörf, framræslu, umgengni o.fl. Eins og maður sér víða í sveitum landsins er umgengni sums staðar afar slæm. Auðvitað á að taka meira á þessu og ég tek undir með hv. þingmanni hvað það varðar. Hv. þm. Haraldur Benediktsson sagði líka að hér á landi væri eitt mesta frjálsræði í Evrópu í viðskiptum með bújarðir. Er þetta svar við því? Er þetta svar við því og er reynt að hamla því að auðmenn geti keypt upp bújarðir í stórum stíl? Nei, þetta er ekki svarið. Þetta er hænuskref í þá átt. Þetta eru hænuskref. Það þarf að senda skýr skilaboð um það hvernig við viljum hafa þetta hér á landi. Þetta er ekki svar við því. Þetta eru ekki skilaboð um það hvernig við viljum hafa þetta. Þetta hamlar afar lítið, frú forseti.

Svona rétt áður en ég lýk máli mínu er það nú þannig að bújarðir hér á landi eru margar hverjar ekki verðmiklar. Fyrir íbúðarholu í Reykjavík má kaupa sæmilega bújörð svolítið fjarri Reykjavík. Auður ríkustu manna í Evrópu, og um heiminn allan, er slíkur að pínulítið land eins og Ísland, þar sem helmingurinn er hálendi eða auðnir, reynist þeim létt í vasa ef þeir þurfa að reiða út fé til að eignast gæði ef þau eru hér, sem þau svo sannarlega eru. Við erum rétt nýfarin að opna augun fyrir því á hvaða gæðum við sitjum hér í þessu landi, þ.e. hreint vatn, hrein náttúra, fallorkan, heita vatnið. Ég lýsi því vonbrigðum mínum með hversu skammt þetta frumvarp gengur.