150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

breyting á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna .

715. mál
[14:41]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegur forseti. Mig langar til að fá að leggja hér orð í belg. Ég sit í hv. allsherjar- og menntamálanefnd sem hafði þetta mál til meðferðar. Ég lít einhvern veginn þannig á að hér sé það að gerast að á síðasta degi þings, eða a.m.k. á lokadögum þess, að fram sé að koma algert grundvallarmál með þessu frumvarpi sem fjallar um kaup og sölu á jörðum og auðlindum sem þeim fylgja. Og mér finnst sérstakt að umræða um svo pólitískt viðamikið mál, eða mál sem er eiginlega stórt í öllum skilningi þess orðs, er stórt pólitískt og hefur í för með sér breytingar á fjórum lagabálkum, komi fram hér í blálokin og að umræða um málið eigi að vera í litlu sem engu samræmi við mikilvægið.

Við erum einfaldlega að fást við auðlindapólitík. Um hana þarf að ríkja sátt. Hér er ætlunin og markmiðið að standa vörð um almannahagsmuni en auðvitað mun útfærslan hafa allt um það að segja hvort það verði í reynd niðurstaðan. Ég hef hlustað á umræðurnar hér í dag og held að ég geti tekið undir þau orð hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur að það sé kannski í reynd meira sem sameinar okkur hér en sundrar. En mér finnst einhvern veginn að þegar maður skoðar frumvarpið geti maður spurt sig: Hvaða pólitík er hér verið að mæta? Hvaða pólitík er hér verið að smíða? Er þetta frumvarp sem speglar markaðslögmál? Nei, það er ekki þannig. Er þetta frumvarp sem setur afdráttarlaus mörk í þágu almannahagsmuna? Svarið við því er líka nei, það er ekki þannig. Niðurstaðan virðist einhvern veginn vera einhver Framsóknarleið, að menn mæti í viðskiptasamninga inn á kontór til ráðherra. Ég er í hópi þeirra sem velta því fyrir sér hvers vegna málið þurfi að vinnast á þessum hraða. Eru hér einhverjir þeir hagsmunir sem þola ekki bið eða þola ekki samtalið í haust? Ég get ekki séð að það muni hafa í för með sér einhverjar dramatískar afleiðingar að við leyfum málinu að þroskast í umræðunni. Ég held að það muni þvert á móti ekki gera annað en að styrkja þetta mál og auka sáttina um það.

Jú, það hefur auðvitað verið umræða og ákall um einhverjar lagabreytingar í þessa veru en ég held að skorturinn sem verður á umræðu um málið hér í þingsal geti hæglega leitt til þess að þegar frumvarpið er síðan orðið að lögum komi í ljós að málið var einfaldlega ekki fullunnið. Það var a.m.k. ekki fullrætt og er þar af leiðandi ekki líklegt til að ná fram pólitískri sátt sem ég held að þurfi a.m.k. alltaf að vera markmiðið með mál sem lúta að auðlindapólitík. Þetta er mál sem kemur inn á eignarréttinn. Þetta er mál sem kemur inn á tengsl okkar við EES. Sjónarmiðum um það hvort frumvarpið standist stjórnarskrá er flaggað í ákveðnum umsögnum. Mér finnst þessum spurningum einfaldlega ekki skýrt svarað.

Ég er sammála því sem segir í greinargerð frumvarpsins um að rík ástæða sé til að gjalda varhuga við mikilli samþjöppun eignarhalds á landi. Við eigum samfélagsleg og menningarleg verðmæti í náttúrunni okkar og það er almannahagur að tryggja hér aðgang að landi og að það sé gert með því að setja einhver mörk til að sporna við eignasamþjöppuninni. Í greinargerð er fjallað um alls konar sjónarmið sem búa að baki, t.d. þjóðaröryggissjónarmið hvað varðar t.d. neysluvatn og neysluvatnsöryggi. Mörg þessara atriði hafa einfaldlega ekkert verið rædd hérna. Mér finnst við heldur ekki hafa rætt sjónarmið á borð við þau sem koma fram í umsögnum. Það er nú dálítið einkenni á þessu máli að margar umsagnir bárust úr ólíkum áttum og margar þeirra eru ansi neikvæðar.

Samtök ferðaþjónustunnar tala um vanbúið frumvarp. Þar hafa menn áhyggjur af íþyngjandi áhrifum á innlenda fjárfestingu í ferðaþjónustu sem maður hefði nú haldið að væri aldeilis sjónarmið sem menn ættu að líta til eins og staðan er hjá okkur í dag.

Samband íslenskra sveitarfélaga mælti gegn því að frumvarpið yrði samþykkt á þessu þingi enda þótt umsögnin væri í grundvallaratriðum jákvæð og með þeim hætti að frumvarpið væri góður grundvöllur til umræðu. Þar er líka flaggað sjónarmiðum um hvaða áhrif frumvarp sem þetta muni hafa á markaðsvirði lands og að hér þurfi að sýna mikla gát. Það sem stingur mig kannski aftur og aftur við yfirferð málsins er að hraðinn er í engu samræmi við þá hagsmuni sem eru undirliggjandi. Mér finnst það einhvern veginn ekki gefa til kynna að verið sé að taka á málinu af þeim þunga sem það á skilið.

Bændasamtökin gerðu athugasemdir við það að ákvörðunarvaldið og rannsóknin á því hvað menn ætla að gera með tilteknar jarðir og tiltekið land sé á hendi ráðherra. Þau teldu eðlilegra að það væri á hendi sveitarfélaganna að fara með það. Og það er líka stef sem við sjáum aftur og aftur í umsögnum um málið, þetta víðtæka vald sem ráðherra fær til að ákveða hvort viðskipti með jarðir fái að eiga sér stað. Þarna erum við auðvitað að smíða þá umgjörð til langframa að viðskiptin og stjórnmálin gangi hönd í hönd sem hefur nú oft þótt formúla sem er ekki gæfuleg.

Sýslumannafélagið gerði víðtækar athugasemdir. Mér fannst sú umsögn ekki síst þess eðlis að þar hefðum við átt að staldra við. Sýslumenn landsins verða þeir aðilar sem fá það hlutverk að ná fram markmiðum laganna, að fylgjast með því hvað er á bak við tiltekin kaup, hvort um er að ræða tengda aðila o.s.frv. Í umsögn Sýslumannafélagsins kemur berlega í ljós að sýslumenn landsins telja sig einfaldlega ekki hafa verkfærin til að sinna því hlutverki sem þeim er ætlað að sinna, að þeir muni ekki geta gert það sem þetta frumvarp leggur þeim á herðar.

Ég hef bara nefnt örfáar af fjöldamörgum umsögnum en úr ólíkum áttum. Það eru Samtök ferðaþjónustunnar, Samband íslenskra sveitarfélaga, Bændasamtökin og Sýslumannafélagið. Allt eru þetta aðilar sem eru með veigamiklar athugasemdir en athugasemdir sem ég held að hægt væri að ná utan um ef málið fengi eðlilegan meðgöngutíma, ef svo mætti segja. Það er kannski það sem ég staldra fyrst og fremst við. Þetta mál er sett fram með það að leiðarljósi að verja almannahagsmuni með því að setja tiltekin mörk um það hvernig jarðir og land á Íslandi og auðlindir sem fylgja jörðunum ganga kaupum og sölum. Öll umgjörðin í kringum það hvernig frumvarpið á að fara í gegnum þingið vekur upp stórar spurningar. Ég held að málið hafi verið til umræðu á fimm fundum í allsherjarnefnd og það er á dagskrá hér í þinginu í dag og mögulega á morgun. Það er allt og sumt þegar ríkisstjórnin er að leggja af stað með algjört grundvallarmál um eignarrétt og afnot fasteigna. Ég átta mig hreinlega ekki á því hvað það er sem veldur. Ég var í hópi þeirra þingmanna í nefndinni sem greiddu atkvæði gegn því að málið yrði tekið út, einfaldlega á þeim forsendum að það hefði ekki náð þeim þroska að fara inn í þingsal. Við vorum öll einhuga um það. En engu að síður er þetta niðurstaðan og mér finnst hún, satt best að segja, vond.