150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

samkeppnislög.

610. mál
[16:19]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég fæ ekki svar við því hvort hv. þingmaður mótmæli mati Samkeppniseftirlitsins sem kemur fram í umsögn þess um frumvarpið til efnahags- og viðskiptanefndar. Þeir telja eðlilegt að leggja til þá hækkun sem hér um ræðir. Ef farið væri eftir vísitölu neysluverðs frá árinu 2008, veltumörkin eru síðan 2008, ættu veltumörkin að fara upp í upp í 3,2–3,3 milljarða. Það er 56% hækkun. En látum það liggja á milli hluta. Það væri ágætt ef hv. þingmaður gæti svarað því vegna þess að ég er ekki í andsvari við hann. Hann er í andsvari við mig.

Herra forseti. Það er rangt sem hér er verið að hamra á að verið sé að veikja Samkeppniseftirlitið, að verið sé að búa til einhvern farveg eða einhverja möguleika fyrir stærri fyrirtæki til að taka yfir þau minni. Það er hvergi í frumvarpinu verið að stíga nein slík skref. Það er akkúrat fremur verið er að einfalda regluverkið og gera það hagkvæmara fyrir lítil fyrirtæki. Það þýðir ekki að hrista hausinn, hv. þingmaður. Það er bara svoleiðis. Við eigum auðvitað að hafa í huga að það er rétt sem haldið er fram að flókið regluverk felur í sér samkeppnishindranir, ekki síst fyrir lítil fyrirtæki en ekki fyrir hin stóru.