150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

samkeppnislög.

610. mál
[16:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég var nokkuð ánægður með fyrri hluta ræðu hv. þingmanns og mér þótti gaman að hlusta á hann. Ég var kannski ekki sammála öllu, en ég skemmti mér yfirleitt betur við að hlusta á fólk með alls konar skoðanir heldur en á það sem er sammála mér. Þegar leið á seinni hluta ræðunnar fóru að renna á mig tvær grímur. Nú erum við sem erum hægra megin í tilverunni, frjálshyggjumenn eða íhaldsmenn, ekki talsmenn þess að hér sé stjórnleysi. Við erum almennt talsmenn þess að hér séu ákveðnar leikreglur, þær séu eins einfaldar og hægt er að hafa þær og að leikreglurnar gildi um alla, allir séu jafnir fyrir lögum og reglum. Þannig er nálgunin. Það má vitna til þess sem Milton Friedman sagði þegar hann hélt kvöldverðarboð hjá Verslunarráði eins og það hét, hygg ég upp úr 1980, 1983 eða 1984. Hann var spurður hver mesta ógnun við kapítalisma væri og hann stóð upp og horfði yfir sal fullan af íslenskum kaupsýslumönnum og bað alla að horfa í spegil. Það er auðvitað rétt að kapítalisminn er stundum sinn versti óvinur.

Ég saknaði hins vegar eins hjá hv. þingmanni. Hann hefur greinilega áhyggjur af því að hér séu vond stórfyrirtæki sem geti misnotað sér aðstöðu o.s.frv. Það er vissulega rétt. Dæmi eru fyrir hendi. En það eru hins vegar ríkið og sveitarfélög sem eru stórir leikendur hér á markaði og koma í veg fyrir heilbrigða samkeppni, koma í veg fyrir að fyrirtæki, einkafyrirtæki, geti t.d. boðið þjónustu sína í Reykjavík eins og gert hefur verið. Ég nefni þar t.d. söfnun á lífrænum úrgangi (Forseti hringir.) sem einkafyrirtæki vildi gera en Reykjavíkurborg hafnaði og kom í veg fyrir. Ég spyr hv. þingmann: Er ekki rétt að við förum að skoða (Forseti hringir.) hvort við þurfum að setja inn í samkeppnislögin einhver ákvæði sem taka á ósanngjörnum (Forseti hringir.) samkeppnisrekstri ríkisins alveg sérstaklega, en ekki einblína alltaf á stórfyrirtæki?