150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

samkeppnislög.

610. mál
[16:48]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég ætla að halda aðeins áfram. Ég hef nefnilega ekki orðið var við að þingmenn Samfylkingarinnar legðust á árarnar með mér og öðrum þingmönnum sem höfum bent á ítrekuð brot ríkisfyrirtækja, ríkisvaldsins og sveitarfélaga, sérstaklega Reykjavíkurborgar, þegar kemur að hagsmunum einkafyrirtækja. Ég benti á t.d. að Reykjavíkurborg kom í veg fyrir það að einkafyrirtæki gæti farið að bjóða íbúum hér að hirða lífrænan úrgang. Borgin sagði nei. Reykjavíkurborg hefur með ýmsum öðrum hætti komið í veg fyrir að einkafyrirtæki að gæti haslað sér völl á öðrum sviðum. Ég ætla ekki að tala um þegar ég benti á það hér að Ríkisútvarpið vísvitandi bryti lög um stofnun dótturfélags um samkeppnisrekstur. Enginn hér í þingsal tók undir. Það var ekki fyrr en Ríkisendurskoðun einu og hálfu ári síðar benti á þá augljósu staðreynd að menn fóru aðeins að ranka við sér. En þegar kemur að ríkisfyrirtækjum, sérstaklega opinberum hlutafélögum, þá er eins og í hugum hv. þingmanna Samfylkingarinnar sé einhver friðarskylda. Það megi ekki einhvern veginn ræða um hvernig ríkisvaldið og hið opinbera kemur fram við einkafyrirtæki. Það er alltaf talað um stórfyrirtækin. En þegar kemur að ríkisvaldinu og sveitarfélögum þá er allt í lagi hvernig þau haga sér, hvernig þau koma fram, ekki síst við lítil fyrirtæki. Ég ætla að benda hv. þingmanni á hvernig skipulagsvaldið í Reykjavíkurborg hefur komið í veg fyrir eðlilega samkeppni, t.d. á matvörumarkaði og eldsneytismarkaði.