150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

samkeppnislög.

610. mál
[16:52]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Samkeppnislög eru löggjöf af því tagi sem er afskaplega mikilvægt að sé góð, vönduð og þjóni tilgangi sínum. Tilgangurinn er jú að skapa leikreglur á markaði þar sem fyrirtæki starfa. Samkeppnislögin hafa það hlutverk að halda óheftri starfsemi á markaði í skefjum þegar hún brýtur á réttindum eða rétti annarra fyrirtækja, neytenda og alls almennings. Jafnan eru miklir hagsmunir undir þegar tekist er á á markaði og alls ekki sama hvernig sú samkeppni er rekin. Stjórnarmeirihlutinn hefur lagt fram tillögur um breytingar á samkeppnislögum og er orðin nokkur stund síðan það var gert og lagt fram í samráðsgátt eins og nú tíðkast. Síðan hefur það gerst í framhaldinu að miklar sviptingar hafa orðið í efnahagslífinu af ástæðum sem enginn sá fyrir.

Þegar maður skoðar málið allt saman og fjölmargar umsagnir sem hafa borist hv. efnahags- og viðskiptanefnd sem fjallar um málið ber það þess glöggt merki að þarna togast á hagsmunir. Ég held að það sé eiginlega ekki hægt að komast hjá því að nefna það, þegar maður horfir á þessar umsagnir, að þær bera þess nokkur merki að mörg fyrirtæki, mörg hagsmunasamtök fyrirtækja, hafa verið mjög jákvæð í garð frumvarpsins. Ég hef jafnan sagt, og kannski einkum á hinum síðari árum, að hagsmunasamtök séu gríðarlega mikilvæg í samfélagi okkar. Þau hafa oft á að skipa fólki sem hefur mikla þekkingu og reynslu og á það ber að hlusta og gaumgæfa það sem þar er sagt. En ekki er þar með sagt að samtök af því tagi hafi í fyrsta lagi alltaf rétt fyrir sér og í öðru lagi að þau hafi heildarhagsmuni að leiðarljósi, almannahagsmuni, þegar þau tjá sig um einstök málefni. Það er mjög mikilvægt að við höfum þetta alltaf í huga þegar við erum að hlusta á hagsmunasamtök af hvaða tagi sem er. Samkeppnislögin okkar eru ekki gallalaus, það má lagfæra þau og þau má bæta. Það er jafnvel kallað eftir því, og það gildir svo sem um alla löggjöf, að löggjöfin sé sanngjörn, hún sé með einhverjum hætti þannig að menn geti séð fyrir hvað má og hvað má ekki. Það er líka mikilvægt að hún sé skilvirk og sinni hlutverki sínu. Um þetta held ég að við getum flest öll sameinast.

Hvað varðar frumvarpið sem hér liggur fyrir og er verið að ræða þá er í fyrsta lagi í mínum huga mjög skýrt að á því eru ýmsir annmarkar sem bent hefur verið á, bæði þeir sem í því eru og síðan annað sem hefði gjarnan mátt taka upp í frumvarpi af þessu tagi eða endurskoðun. Það er að mínu mati ekkert sem kallar á það að veigamiklar breytingar á samkeppnislögum séu gerðar núna. Það er engin tímapressa og eiginlega má segja að það sé síður en svo vegna þess ástands sem uppi er í samfélaginu núna og það er fyrirséð að margvíslegar breytingar verða á samsetningu atvinnulífsins og það verður uppstokkun og trúlegt að mörg fyrirtæki muni leggja upp laupana, því miður, og það verði svona endurskipulagning í því þar sem hætt er við því að fyrirtækjum fækki og jafnvel að þau sem eftir verða stækki. Þannig að þetta eru aðstæður þar sem ég tel að sé óráðlegt að ráðast í miklar breytingar á samkeppnislögunum. Í það minnsta þurfi meiri íhugunar við. Þess vegna er ég með 1. minni hluta á frávísunartillögunni. Rökin eru einmitt þessi, að það þurfi að flýta sér hægt og það þurfi að hugsa málið betur.

Það má nefna í þessu samhengi, bara til að benda á það, að eitt veigamikið atriði sem var í frumvarpinu var að taka úr sambandi heimildir Samkeppniseftirlitsins til íhlutunar án brotsins, eins og það er kallað, á mörkuðum þar sem samþjöppun eða samkeppnisstaðan verður óeðlileg án þess að beinlínis sé hægt að segja að eitthvert fyrirtæki hafi brotið af sér. Það verða einfaldlega til þær aðstæður og markaðsbrestur að það verður að grípa til íhlutunar.

Það var lögð mikil áhersla á að þetta færi í gegn og í umsögnum margra hagsmunaaðila var þetta talið eitt af mikilvægustu ákvæðum frumvarpsins. Það var mjög vísað til þess að hér væri verið að feta sömu slóð og væri verið að gera í Evrópu. Það kann að vera að frumvarpið hafi orðið til fyrir það löngum tíma, eða þessi hugmynd, að menn hafi ekki haft tíma eða tækifæri til að fylgjast með þeirri þróun sem er að verða í Evrópu sem gengur einmitt út á að það sé mjög mikilvægt að samkeppniseftirlit hafi slíkar heimildir þannig að það að vísa til þróunar í öðrum ríkjum reyndist, a.m.k. þegar hér var komið sögu, vera rangt. Mín bjargfasta skoðun er sú að það séu mörg tækifæri til að gera betur, bæði þannig að þeir sem lögin varða með beinum hætti, þ.e. fyrirtækin í landinu sem líta á þetta sem sínar leikreglur, það er hægt að laga þar ýmislegt og straumlínulaga og gera auðveldara viðfangs. En við megum heldur ekki gleyma því að á hinni hliðinni eru þá annars vegar þau fyrirtæki sem eru minni í sniðum, síðan auðvitað allur almenningur sem misnotkun á ráðandi stöðu eða misbeiting á einhvers konar valdi sem fyrirtæki hefur á markaði bitnar fyrst og fremst á. Það var t.d. eitt af því sem var sterklega bent á í umsögnum frá Samkeppniseftirlitinu sjálfu og Neytendasamtökum o.fl., að það vantar sárlega ákvæði í samkeppnislögin um það hvernig þeir geta sótt bætur sem verða fyrir skakkaföllum vegna þess að lögin eru brotin. Þannig að mín niðurstaða er einfaldlega sú að málið sé ekki það brýnt núna og það sé miklu skynsamlegra að hugsa málið upp á nýtt og menn reyni að skoða öll þessi mál mun betur.

Eitt atriði í viðbót sem ég mundi eftir hérna þegar ég ætlaði að fara að slá botninn í þetta er þetta með áfrýjunarnefndina og samspil við dómstóla. Fyrst átti nú að banna Samkeppniseftirlitinu að geta skotið úrskurðum áfrýjunarnefndarinnar til dómstóla en nú er farin blönduð leið. Síðan kemur fram í nefndarálitinu frá meiri hlutanum að þar eru menn farnir að velta fyrir sér hvort setja eigi upp sérdómstól sem fjalli um samkeppnismál og reyndar fleiri mál. Ég held að það sé ekkert afleit hugmynd og það er sjálfsagt að skoða hana en sýnir enn og aftur að lausnin sem frumvarpið boðar leysir ekki þann vanda sem henni er ætlað og menn eru þegar farnir að huga að einhverju öðru. Þess vegna segi ég, og það er mín meginniðurstaða: Við skulum láta staðar numið hér í meðferð málsins í þinginu og vísa því til ríkisstjórnarinnar til frekari úrvinnslu og fá síðan, ég veit ekki hvað það tekur langan tíma, eftir einhverja mánuði, kannski í haust eða vor, betur unnið frumvarp þar sem búið er að fara yfir málin með þeim aðilum sem gerst þekkja og þá með sem víðastri skírskotun og horfa til þróunar í öðrum löndum. Þá er ég alveg sannfærður um að getum við stigið lengra í þá átt að bæta þetta allt saman. En að lokum þá er það þannig að samkeppnislög sem hagsmunasamtök í atvinnulífinu, atvinnurekendur, eru fullkomlega sátt við eru samkeppnislög sem hafa ekki nægt bit.