150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

samkeppnislög.

610. mál
[17:03]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Þetta er mikilvæg löggjöf sem við fjöllum hér um. Við megum ekki gleyma því að samkeppni er öflugasta neytendaverndin og þess vegna er það ekki lítið mál þegar settar eru fram stórar og miklar breytingar og ekki lítið mál hver hugur ríkisstjórnarinnar er þegar kemur að samkeppnismálum. Og af hverju segi ég þetta? Málið var sett í samráðsgáttina — við þurfum reyndar aðeins að fara að huga að því hvort hún sé að fúnkera í raun og veru því að þegar athugasemdir koma er oft ekki tekið tillit til þeirra. En út af þessu máli sem ríkisstjórnin lagði fram, og sýndi ákveðinn hug og markmiðssetningu af hálfu ríkisstjórnarflokkanna, ekki síst þess flokks sem sér um samkeppnismálin, þá voru athugasemdirnar sem betur fer það miklar og þungar og það háværar að dregið var í land hvað það varðar. Stefnt var að því að veikja íslensku samkeppnislöggjöfina og var m.a. fyrirhugað að afnema heimild Samkeppniseftirlitsins til að fara með niðurstöðu áfrýjunarnefndar samkeppnismála fyrir dómstóla. Auðvitað hefði það veikt mjög möguleika Samkeppniseftirlitsins til að verja sig og ýta undir ákveðna samkeppni. Ef það lagaumhverfi hefði verið til staðar hefði sú leið sem Landsréttur staðfesti á þessu ári — en þá staðfesti Landsréttur að Mjólkursamsalan hefði gerst sek um samkeppnisbrot og bæri að greiða ríkinu tæpan hálfan milljarð vegna samkeppnislagabrota — ekki verið fær og ekki verið reynd, ef búið hefði verið að taka af þessa heimild Samkeppniseftirlitsins til að fara áfram með málið. Þess vegna segi ég: Þegar öflugasta neytendaverndin er samkeppni og þegar við greinum hug til þess að veikja samkeppni hljóta öll viðvörunarljós að blikka.

Ég leyni því ekki að í samningaviðræðum við þinglok lögðum við í Viðreisn mikla áherslu á að hægja á ferli breytinga varðandi samkeppnislöggjöfina, af því að hún er svo mikilvæg, frekar en að ýta í gegn máli sem er ekki fullburða. Er ég með þessu að segja að ekki megi breyta neinu í samkeppnislögunum? Aldeilis ekki. Og það er ekki þannig að Samkeppniseftirlitið sé yfir gagnrýni hafið, aldeilis ekki. Það er algerlega eðlilegt að skoða t.d. einfaldara regluverk, og þá raunverulega einfaldara regluverk, til að ýta undir samkeppni og neytendavernd. Það er mjög eðlilegt að dregið sé fram að tímabinda eigi skipunartíma forstjóra Samkeppniseftirlitsins. Það má líka taka undir það, sem hefur m.a. komið fram hjá Gylfa Magnússyni, fyrrverandi formanni stjórnar Samkeppniseftirlitsins, að skerpa þurfi á hæfiskröfum þeim sem gerðar eru til stjórnar Samkeppniseftirlitsins. Við þeirri athugasemd var reyndar ekki brugðist. Það má því skerpa á ýmsu varðandi Samkeppniseftirlitið.

Við í Viðreisn höfum líka lagt gríðarlega mikla áherslu á að auka leiðsagnarhlutverk Samkeppniseftirlitsins af því að það sparar tíma og fjármagn. Það skiptir miklu máli. Eftirlitið hefur verið gagnrýnt fyrir að hafa ekki sinnt því sem skyldi af því að heimildin er til staðar. Og af hverju skyldi það nú vera? Þegar fjárframlög til Samkeppniseftirlitsins eru skoðuð sést að leynt og ljóst hefur verið dregið úr framlögum til eftirlitsins. Það segir ákveðna sögu, ekki síst í tíð þessarar ríkisstjórnar og ríkisstjórnarinnar 2013–2016. Og það segir ákveðna sögu, virðulegi forseti, þegar viðhorfið er svona, af því að það fjármagn sem hægt væri að eyrnamerkja til Samkeppniseftirlitsins, til þess að ýta undir leiðsagnarhlutverkið, myndi bæði vera í þágu lítilla sem stórra fyrirtækja. Við höfum upplifað ákveðinn samruna á smásölumarkaði, við höfum upplifað eitt og annað sem eðlilegt, mikilvægt og brýnt væri að eftirlitið fari yfir. En það hefði líka verið hjálplegt ef stigið hefði verið fyrr inn í ferlið. Það hefði sparað bæði tíma og mikla fjármuni fyrir fyrirtæki sem fóru af stað í samrunaferlið. Það er því ekki þannig að ekki eigi að endurskoða samkeppnislögin. Það er um að gera og það er það sem við eigum að gera. En það er ekkert í dag sem kallar á að ýta eigi þessu máli í gegnum þingið. Það er miklu frekar eftir heimsfaraldurinn, eftir Covid, því að við erum að sjá fyrirtæki flosna upp í einum af grunnatvinnuvegum okkar, ferðaþjónustunni. Við sjáum gríðarlegan samruna á þeim markaði sem ég held að muni skipta máli. Ég held að hagræðing þurfi að eiga sér stað innan ferðaþjónustunnar, ákveðin samþjöppun, en ekki sé þá á sama tíma verið að draga tennur úr Samkeppniseftirlitinu. Þess vegna segi ég: Það er miklu frekar núna, undir heimsfaraldri, með m.a. stöðuna innan ferðaþjónustunnar og víða annars staðar í samfélaginu, að við hefðum átt að hægja á nákvæmlega þessu. Eins og ég segi höfum við í Viðreisn verið reiðubúin til að beita okkur fyrir því að eiga þverpólitískt samstarf um þetta en fá líka fleiri raddir strax að borðinu til að styrkja betur það regluverk sem er í kringum samkeppnismálin sem eru okkur ótrúlega mikilvæg.

Ég vil líka benda á þungann í umsögnum ASÍ og Neytendasamtakanna. Það er ekkert hér annað en ákveðinn þvergirðingsháttur sem leiðir til þess að við, eða stjórnarflokkarnir, erum að keyra þetta mál í gegn. Ég hefði viljað vinna það mun betur og undirstrika að hugsa líka um samhengi Samkeppniseftirlitsins, í ljósi þess ástands sem við erum í í dag þar sem eru, eins og ég gat um áðan, kauptækifæri þeirra stóru, og við upplifum vonandi ekki eftir þessa kreppu að ríkisstjórnin hafi ekki gert neitt til að hafa leikreglurnar heilbrigðar sem stuðla að því að það séu þá ekki alltaf sömu gömlu andlitin og sömu gömlu vinirnir sem kaupa upp heila og hálfa markaðinn. Það vil ég ekki sjá.

Við verðum líka að hafa í huga hið mikilvæga samhengi Samkeppniseftirlitsins og samkeppnismarkaða, skilvirkra samkeppnismarkaða. Það er meginparturinn af íslenska atvinnulífinu. Mig minnir að 90–94% fyrirtækja séu lítil og meðalstór fyrirtæki. Þau eru stólpinn, meginstólpinn, í íslensku atvinnulífi og það eru akkúrat þau fyrirtæki, ekki síður en neytendur sjálfir, sem stóla á virkt samkeppniseftirlit, sem stóla á að til staðar sé eftirlit sem þori að spyrja ákveðinna spurninga, af því að það eru ákveðin lítil fyrirtæki og meðalstór fyrirtæki sem þora ekki að spyrja spurninga eða rugga bátnum af ótta og óöryggi gagnvart þeim sem fjármagnið hafa og eru stóru aðilarnir á markaðnum. Þannig að á fámennum markaði eins og hér þá verður samkeppnisumhverfi sem slíkt alltaf ákveðið samspil að jafnvægi á milli stærðarhagkvæmni á litlum markaði. Við sjáum að á ákveðnum sviðum hefur ákveðin stærðarhagkvæmni á markaði átt sér stað, sem er ágætt og mikilvægt upp á að auka hagkvæmni og hagvöxt. En við verðum líka að gæta að því að þetta jafnvægi sé á milli virkrar samkeppni og stærðarhagkvæmni. Það er af þeim sökum m.a. sem ég geld varhuga við að stíga skref sem að mínu mati eru ekki nægjanlega skýr og skörp til að styrkja stöðu neytenda og lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

Ég hef líka undirstrikað og sagði það áðan: Sagan og aðdragandinn að þessu máli segir svo mikið um viðhorf ríkisstjórnarinnar gagnvart neytendum og samkeppni, að ríkisstjórnin hafi í fyrstu ætlað sér að veikja og afnema heimild Samkeppniseftirlitsins til að fara með mál fyrir dómstóla. Það segir sína sögu. Það segir líka sína sögu að við vorum hér fyrir nokkrum vikum að ræða neytendamálin, að ríkisstjórnin afgreiðir frá sér mál sem varðar inneignarnótur vegna pakkaferða, mál sem gekk þvert gegn eignarrétti en ekki síður neytendavernd. Þess vegna segi ég: Þetta dregur fram viðhorf ríkisins og ríkisstjórnarinnar gagnvart neytendum annars vegar og samkeppni hins vegar. Og talandi um samkeppni og viðhorf gagnvart samkeppni og almennum leikreglum á samkeppnismarkaði, þá höfum við í Viðreisn ítrekað lagt fram frumvarp um að leggja niður verðlagsnefnd búvara, sem er ekkert annað en söguleg arfleifð sem þjónar ekki tilgangi lengur í nútímalegum heimi samkeppni, ef menn vilja raunverulega byggja undir samkeppni. Við höfum líka lagt fram mál um að leggja niður sérreglur fyrir tiltekið fyrirtæki á mjólkurmarkaði, Mjólkursamsöluna. En ríkisstjórnin heldur hlífiskildi nákvæmlega yfir þessu, að hafa ákveðnar sérreglur um tiltekið fyrirtæki, þeirra fyrirtæki, á markaði. Það má ekki nefna það hér í þessum þingsal öðruvísi en að það sé kolfellt að láta alla samkeppnislöggjöfina gilda um mjólkurmarkaðinn. Það má ekki nefna hér. Ég segi þetta og dreg þetta fram til að sýna fram á að það eru ekki tilteknir vaktarar á ferð hjá ríkisstjórninni þegar kemur að neytendamálum eða samkeppnismálum.

Svo heyrir maður það í andsvörum af hálfu stjórnarflokkanna að þeir nái ekki upp í nef sér þegar kemur að heilbrigðri samkeppni og hinu opinbera. Ég er algerlega sammála því. Við eigum að gera miklu meira til að undirstrika að samkeppnislög gilda líka um hið opinbera á ákveðnum sviðum. Það er ekki spurning. En hver hefur reynslan verið þegar við í Viðreisn höfum lagt fram frumvarp til að tryggja aðkomu einkarekstrar, t.d. á sviði heilbrigðismála til að losa um biðlistana? Hvað hefur Sjálfstæðisflokkurinn gert? Ítrekað fellt tillögur okkar í Viðreisn um að laga það biðlistaástand sem er í samfélaginu varðandi liðskiptaaðgerðir og fleiri slíkar aðgerðir. Og ég sé ekki betur en að í dag hafi Samband ungra Sjálfstæðismanna, varaformaður þess, sett fram mjög harða gagnrýni á þingmenn Sjálfstæðisflokksins hvað þetta varðar. Þetta er því bara hjómið eitt þegar þingmenn Sjálfstæðisflokksins koma hingað upp og tala um samkeppni, tala um einkarekstur; þegar þeir fá tækifæri til þess hér í þessum sal að ýta á græna hnappinn er það aldrei gert. Þá er það alltaf rauði hnappurinn af því að annaðhvort koma tillögurnar ekki frá réttum aðila eða að ekki má fara út fyrir ramma stjórnarsáttmálans. Ókei, það getur svo sem verið skiljanlegt, en segið það þá bara. Það er um að gera að segja það en ekki koma hingað upp lon og don og tala um mikilvægi einkarekstrar en gera ekki neitt til þess að ýta undir að hann styrkist í samfélaginu, frekar en að koma síðan fram með svona mál eins og hér er sem dregur að einhverju leyti tennurnar úr neytendavernd.

Ég ætla líka að draga það fram að ákveðnar breytingar hafa þó átt sér stað á málinu í nefndinni, eins og til að mynda í 16. gr. laganna, c-lið, um markaðsgreiningar sem átti að afnema, en ákveðin útfærsla er á því sem ég tel vera áhugaverða og ef rétt er á málum haldið gæti tækið orðið mikilvægt fyrir Samkeppniseftirlitið. En fram til þessa hefur þetta tæki, sem Samkeppniseftirlitið hefur haft og ríkisstjórnin vildi afnema, verið mikilvægt og gæti verið leiðbeinandi fyrir markaðinn ef eftirlitið hefði skýrari heimildir til þess. Ég held að þetta sé ákveðin þróun þar og breyting af hinu góða.

Það væri eitthvað að íslensku samfélagi ef stóru aðilarnir í samfélaginu væru ekki óánægðir með Samkeppniseftirlitið, það er eðlilegt að þeir séu það. Maður skyldi ekki halda að það væri skrýtið. Stundum hefur það verið með réttu, það má alveg gagnrýna eitt og annað frá Samkeppniseftirlitinu og maður hefur ekki alltaf skilið þennan tíma, það er ekki fyrr en maður fer að rýna í fjárframlögin sem hafa verið sett til eftirlitsins sem maður fer að skilja samhengið. Fjáraukinn hefur eðlilega verið blásinn út, en það er ekkert í fjáraukanum sem gefur til kynna að ríkisstjórnin hafi einhvern metnað eða dug í því eða sýni á þau spil að hún ætli raunverulega að taka samkeppnismálin alvarlega með því að auka fjármagn til eftirlitsins. Ég hefði svo sannarlega viljað sjá þennan þátt, leiðsagnar- og greiningarhlutann, verða virkjaðan mun betur með skýrum pólitískum vilja og ekki síst vilja löggjafans. Ekki er verið að stíga það skref hér. En þessar raddir stóru aðilanna heyrum við, enda kannski með öflug hagsmunasamtök á bak við sig sem standa sig oft vel, en stundum verður þetta eintóna, stundum fram úr hófi. Raddirnar sem við heyrum frá neytendum eru hins vegar ekki alveg eins sterkar og hvað þá frá ríkisstjórninni, eins og ég hef getið um og get bent á mál eftir mál sem hafa farið gegn hagsmunum neytenda. Þá verðum við að hafa varnartæki fyrir neytendur í lagi, þessa öryggisventla fyrir neytendur, og það eru samkeppnislögin. Þess vegna verðum við að vanda betur til verka. Við í Viðreisn höfum margítrekað lýst því yfir að fara þurfi yfir ákveðnar breytingar á samkeppnislögunum til að gera þau einfaldari, gera þau skilvirkari, án þess að draga mesta bitið úr því aðhaldi og eftirlitshlutverki sem við viljum að Samkeppniseftirlitið hafi gagnvart hinum stóru til verndar litlu og meðalstóru fyrirtækjunum, til að vernda neytendur. Þess vegna hefði ég óskað þess að áður en ráðherra hefði sett þetta mál fram hefði verið skipuð þverfagleg nefnd, ég tel að það sé ekki orðið of seint, til að endurskoða samkeppnislöggjöfina og öll þau sjónarmið sem hafa verið sett fram í tengslum við þetta mikilvæga mál. Það hefur verið mikil og hávær gagnrýni innan fræðasamfélagsins, í fjölmiðlunum. Það kallar allt á að við vöndum málsmeðferðina og umfjöllun um þetta annars mikilvæga mál.

Virðulegi forseti. Það er að mörgu að hyggja í þessu mikla hagsmunamáli lítilla og meðalstórra fyrirtækja, neytenda íslensks samfélags, að hafa hér öfluga neytenda- og samkeppnisvernd. Við sjáum það oft að ef við værum ekki með regluverkið að utan þá værum við verr stödd sem neytendur og verr stödd með hluta af atvinnulífinu. Við sjáum að stórfyrirtæki á alþjóðavísu eru oft og tíðum að gleypa markaðinn. Viðspyrna landa og einstakra þjóða er ekki mikil ein og sér en saman geta sambönd tekið markvisst á því, eins og Evrópusambandið hefur verið að gera gagnvart þessum stórfyrirtækjum og alþjóðastórfyrirtækjahringjum eins og Amazon, Google og Apple. Hver segir að slík heljartök á landi eins og Íslandi náist ekki í gegn hér? Það eru blikur á lofti varðandi ákveðnar samsteypur þar sem mikil samþjöppun er, sem eru að komast í hendur tiltekinna fárra aðila. Það er umhugsunarefni að við sjáum ákveðna þróun. Þess vegna bið ég meiri hlutann hér á þingi að stíga varlega til jarðar þegar komið er að breytingum á samkeppnislöggjöfinni. Ég tel að þetta mál sé þannig vaxið að með betri og meiri umfjöllun væri hægt að ná mun meiri samhljómi um það en nú er verið að gera. Ég held að umfjöllun um málið nokkra mánuði í viðbót myndi ekki skaða það heldur miklu frekar styrkja það og styrkja þar með neytendur og öfluga samkeppni og frjáls viðskipti á Íslandi.