150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

734. mál
[18:10]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Við höfum nú hlýtt á nefndarálit hv. umhverfis- og samgöngunefndar varðandi þetta frumvarp sem skiptir kannski ekki sköpum fyrir hag lands og þjóðar en skiptir umtalsverðu máli fyrir hinar dreifðu byggðir í landinu. Frumvarpið felur í sér fyrst og fremst tvenns konar breytingar. Annars vegar eru lög um jöfnun flutningskostnaðar olíuvara felld úr gildi. Hætt verður að leggja sérstakt flutningsjöfnunargjald á allar olíuvörur sem fluttar eru til landsins og ætlaðar eru til nota innan lands. Hins vegar er gerð breyting á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun frá 2011 og veitt lagastoð fyrir því fyrirkomulagi að Byggðastofnun annist úthlutun styrkja vegna flutningskostnaðar olíuvara.

Með þessu er verið að skipa málum með svipuðum hætti og varðandi lögin um svæðisbundna flutningsjöfnun sem eru að uppistöðunni til frá árinu 2011. Markmið þeirra er að styðja við framleiðsluiðnað og atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni með því að jafna flutningskostnað framleiðenda sem staðsettir eru fjarri innanlandsmarkaði eða útflutningshöfn og búa við skerta samkeppnisstöðu vegna hærri flutningskostnaðar miðað við þá framleiðendur sem staðsettir eru nær markaði. Þessum lögum var breytt árið 2018 og gilda frá þeim tíma einnig um veitingu flutningsjöfnunarstyrkja til einstaklinga eða lögaðila sem framleiða og rækta ávexti, blóm eða grænmeti og fullvinna framleiðslu sína í söluhæfar umbúðir.

Herra forseti. Hægt er að takast á um það með hægum vanda hvort flutningsjöfnun á jarðefnaeldsneyti, sem við erum markvisst að hverfa frá, sé tímaskekkja. Það kom fram í starfi nefndarinnar og verður jafnvel kynnt með breytingartillögu að þessi flutningsjöfnun verði alveg felld niður. Hafa verður í huga að framboð á orkugjöfum til samgangna á byggðalega viðkvæmum stöðum er misjafnt. Enn sem komið er verður því ekki við komið að nýta þungavinnuvélar og vélknúin tæki, t.d. í landbúnaði, með nýjum orkugjöfum en sá tími mun væntanlega koma. Á meðan er eðlilegt að jafnræði ríki hringinn í kringum landið eins og hægt er. Flutningsjöfnuður er stórnotendum líka mikilvægur, þ.e. notendum sem nota töluvert mikið af olíu eins og í smábátaútgerð. Hann er mikilvægur á strjálbýlum svæðum, í litlum byggðakjörnum þar sem smábátaútgerðin er umtalsverð.

Lögin voru sem sagt felld úr gildi, og þar með flutningsjöfnunarsjóður, og málin færð til Byggðastofnunar, eins og fyrr segir, líkt og með svæðisbundnu flutningsjöfnunina. Fyrirkomulagið er þannig að innflytjendur olíuvara greiða sérstakt flutningsjöfnunargjald sem lagt er á olíuna þegar við kaupum hana hjá smásölum. Með lögum nr. 47/2018 var raunar gerð sú breyting að tekjurnar af þessu gjaldi renna ekki í sérstakan flutningsjöfnunarsjóð sem skilgreindur var heldur renna nú beint í ríkissjóð. Jafnframt bættist við ákvæði um að á grundvelli heimildar í fjárlögum skuli ráðherra ákvarða fjárveitingu í flutningsjöfnunarsjóð olíuvara sem nemur að lágmarki áætlun fjárlaga um innheimtu tekna af gjaldinu. Áhrifin á ríkissjóð eiga því að vera óveruleg eða engin. Þessar tekjur námu á árinu 2016 um 376 millj. kr., þær hækkuðu árið 2017 upp í 387 milljónir og árið 2018 hækkuðu þær enn frekar, upp í 403 milljónir. Eflaust hafa þær líka hækkað árið 2019 en þær tölur eru ekki handbærar. Fjárhæðin sem ákvörðuð er í fjárlögum á þessu ári er 375 millj. kr. Í ríkissjóð rennur því upphæð sem nemur sennilega ríflega 400 milljónum. Eftirleiðis mun Byggðastofnun alfarið sjá um þennan þátt nái frumvarpið fram að ganga. Fer mjög vel á því að setja þessa þjónustu í gegnsæjan faglegan farveg á þeim ágæta starfsvettvangi sem Byggðastofnun er.

Fram kom í flutningi hv. þingmanns áðan að fyrir liggi drög að reglugerð um styrki til jöfnunar á flutningskostnaði. Gert er ráð fyrir að Byggðastofnun veiti styrki á grundvelli laganna til jöfnunar á flutningskostnaði olíuvara hjá söluaðilum sem veita þjónustu á svæðum sem búa við skerta samkeppnisstöðu vegna staðsetningar eða aðstöðumunar eða eru á sérstaklega viðkvæmum svæðum. Í þessari reglugerð verður stuðst við svokallaða byggðastuðla. Sem dæmi njóta svæði sem áður hafa jafnvel fengið úthlutað fé til flutningsjöfnunar stuðulinn 0 en þar er vísað til sölustaða sem eru innan við 3 km frá þjóðvegi 1 eða þéttbýliskjarna sem eru með fleiri en 2.000 íbúa. Þetta er því skilgreint með miklu markvissari og gegnsærri hætti en áður. Áhrif frumvarpsins á ríkissjóð eru þau að í stað sérstaka gjaldsins á olíuvörur kemur beint framlag úr ríkissjóði til svæðisbundinnar flutningsjöfnunar upp á 170 millj. kr., eins og fram kom í máli hv. þingmanns áðan. Það verður fjármagnað með vörugjaldshækkun á olíuvörur, sem raunar er þegar fyrir hendi, og sú fjárhæð verður nýtt að fullu til að jafna kostnað, dreifingu og sölu á olíuvörum á landsbyggðinni. Frumvarpið gerir þannig ráð fyrir að áhrifin á ríkissjóð verði engin.

Ljóst er, herra forseti, að með þessu er verið að létta álögum af olíufélögunum. Til þessa hafa þau verið að greiða, eða réttara sagt neytendur, kaupendur eldsneytis, ríflega 400 milljónir með sérstöku flutningsjöfnunargjaldi. Samkvæmt frumvarpinu renna mun minni peningar til flutningsjöfnunar, eða 175 millj. kr. eins og staðan er um þessar mundir, og verða innheimt með hærra vörugjaldi. Þetta þýðir að a.m.k. 220–230 milljónir verða eftir hjá olíufélögunum. Það verður fróðlegt að sjá hvort neytendur fái að njóta þessara hagstæðu breytinga í lægra eldsneyti. Ef hinn elskaði markaður sem núverandi stjórnvöld hafa svo mikla trú á virkar ætti það sannarlega að gerast. Með þessu frumvarpi er verið að styrkja lagalega umgjörð varðandi flutningsjöfnun en talsvert ósætti hefur verið hjá olíuinnflytjendum með núverandi fyrirkomulag. Einhverjir þeirra standa nú í málaferlum vegna þess.

Herra forseti. Í greinargerð er fjallað nokkuð um skuldbindingar okkar vegna EES-samningsins um ríkisstyrki. Núverandi fyrirkomulag er komið svo til ára sinna að það var þegar við lýði við gildistöku EES-samningsins. Með frumvarpinu eru fyrst og fremst þær breytingar gerðar sem felast í einföldun á útreikningi styrkja, að byggðasjónarmið séu skýrari og betur römmuð inn. Eins og fram kemur í nefndaráliti og drepið var á hér að framan er mikilvægt að með því kerfi sem tekið verður upp í þessu frumvarpi verði ekki gefinn neinn afsláttur af markmiðum Íslendinga um orkuskipti í samgöngum, að það virki ekki letjandi með neinum hætti að því leyti. Stöðugt verður að halda vöku sinni með að þróa stuðning við dreifingu á endurnýjanlegum orkugjöfum, ef það telst raunhæfur kostur, auk þess að fjölga rafmagnshleðslustöðvum eða öðrum hleðslustöðvum fyrir endurnýjanlega orkugjafa. En við erum ekki enn komin á þann stað með stórar vélar og tæki til sveita og flutningatæki að þau geti nýtt sér að nokkru marki þessa kosti. En okkur miðar vel og hratt áfram.

Herra forseti. Ég er stuðningsmaður þessa frumvarps og þessara breytinga. Ég tel þetta ágæta tilraun og góða útfærslu og að málið sé vel komið hjá Byggðastofnun. Reglugerðin sem fyrir liggur í drögum er skýr. Auðvitað höfum við rekið okkur á að það sem virðist afskaplega skýrt og greinargott og einfalt í framkvæmd verður það ekki og málið vefst eitthvað fyrir í útfærslunni. En þetta ræðst auðvitað allt saman af útfærslu.