150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

734. mál
[18:20]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Framsögumaður og hv. þm. Guðjón S. Brjánsson hafa farið ágætlega yfir þetta mál. Ég er einfaldlega með eina breytingartillögu um að fella þetta allt bara burt því að það kom fram í umsögnum og hjá gestum sem komu fyrir nefndina að öllum þessum 400 milljónum, sem koma inn í ríkissjóð, er útdeilt til baka, til dreifingaraðila o.s.frv. sem borga upprunalega gjaldið við innflutning á olíuvörum. Þetta er svona millifærsla á milli innflutningsaðila og dreifingaraðila sem eru nokkurn veginn sömu aðilarnir. Þegar allt kemur til alls kemur einungis einn aðili út í plús eftir allar þessar tilfærslur. Það skiptir ekki máli hver það er en það er mismunur upp á 25 millj. kr., 25 millj. kr. er allt havaríið sem þessi lög og allt þetta umstang kosta. Í staðinn fyrir að vera með allt þetta apparat utan um þennan flutningsjöfnunarsjóð er best að leggja þetta fyrirkomulag bara niður. Það er hægt að laga þetta öðruvísi, t.d. í byggðaáætlun eða einhverju því um líku, ef þess þarf upp á þessar 25 milljónir.