150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

breyting á ýmsum lögum á sviði sjávarútvegs, fiskeldis, lax- og silungsveiði vegna einföldunar regluverks og stjórnsýslu.

713. mál
[18:32]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta neitt sérstaklega langt. Mig langaði bara að koma hér upp til að vekja athygli þingheims á því sem snýr að lögum um að miða sektir fyrir landhelgisbrot við gullkrónur. Þetta er mál sem lætur lítið yfir sér og eflaust er jafnvel hægt að gleðjast yfir því að enn þá séu til lög sem miða við gullkrónur. Eflaust hefur fólk hugsað að það væri nú sök sér að fella þetta úr gildi enda kannski ekkert alveg ljóst hvað gullkrónur eru í dag, eins og fram kemur í ágætri fyrirspurn frá hv. þm. Andrési Inga Jónssyni til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í síðustu viku. Ástæðan fyrir því að ég vildi vekja athygli á þessu máli er hins vegar að þetta sýnir svo vel hvað það skiptir miklu máli að þingheimur sé vel vakandi yfir þeim málum sem koma til þingsins. Hv. þm. Andrés Ingi Jónsson benti mér einmitt á að þetta gæti verið vandamál því að það vill svo til að einu lögin sem þessar ágætu gullkrónur tengjast eru sektarákvæði í hvalveiðilögum þannig að það má de facto segja að ráðherra hafi lagt til að fella úr gildi sektir við brotum á hvalveiðum, sem er náttúrlega stórmál. Vonandi og líklega var þetta nú bara vangá. Það breytir því ekki að ég held að það hafi verið mjög mikilvægt að nefndin hafi fylgt þessu eftir og fengið þessar upplýsingar. Ég held að það hafi ekki verið, eins og kemur fram í nefndarálitinu, vilji nefndarinnar að fella þetta niður. Og ég bara fagna því að meiri hlutinn leggi þetta til. Í rauninni má segja að þetta sé líka ágæt áminning um mikilvægi nefndarstarfanna og að nefndarstörfin séu vönduð, að vandað sé til verka. Ég vildi, herra forseti, kannski fyrst og fremst koma hingað upp til að vekja athygli á akkúrat því. Vonandi verður þetta hvatning sömuleiðis til þingheims um að vanda líka til verka í málum sem láta lítið yfir sér en skipta gríðarlega miklu máli ef of langt er gengið. Ef þetta hefði t.d. orðið að lögum hefðum við getað lent í vandræðum með að sekta fyrir hvalveiðibrot sem er, a.m.k. að mínu mati og að mati nefndarinnar, ekki ásættanlegt.

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þetta. Ég ætla bara að láta þetta duga.