150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

fjáraukalög 2020.

841. mál
[18:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2020, samanber lög nr. 36/2020, frá meiri hluta fjárlaganefndar. Frumvarpið er að finna á þskj. 1488 og nefndarálit á þskj. 1771. Fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytisins komu fyrir nefndina og kynntu frumvarpið og jafnframt kynntu fulltrúar frá ráðuneytinu sviðsmyndir um væntanlega afkomu og skuldastöðu ríkissjóðs á þessu og næsta ári. Nefndin fékk á sinn fund fulltrúa félagsmálaráðuneytisins og fulltrúa frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Þá fundaði nefndin með fulltrúum Ríkisendurskoðunar um skýrslu um hlutastarfaleiðina sem tengist efni frumvarpsins. Þá fundaði nefndin með umsagnaraðilum frá Alþýðusambandi Íslands, Samtökum iðnaðarins, Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu, Öryrkjabandalagi Íslands, Sambandi íslenskra kvikmyndaframleiðenda og Samtökum iðnaðarins. Fulltrúar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins komu á fund nefndarinnar sem og fulltrúi frá Bændasamtökum Íslands.

Hér er um að ræða þriðja frumvarp til fjáraukalaga það sem af er þessu ári og er það út af fyrir sig sérstakt og dæmi um þær fordæmalausu aðstæður sem uppi eru og hversu knýjandi er að bregðast hratt við. Við höfum á skömmum tíma fjallað um, farið með í gegnum þingið og samþykkt fjölmargar aðgerðir sem í mörgum tilfellum kalla á aukin útgjöld og í einhverjum tilvikum heimildir til handa ráðherra til ýmissa ráðstafana, samanber 5. og 6. gr. heimildir.

Í þessu frumvarpi, eins og í fyrri tveimur fjáraukalagafrumvörpum, er fyrst og fremst verið að gera tillögur um að veittar verði auknar fjárheimildir vegna ákvarðana stjórnvalda um afmarkaðar og tímabundnar ráðstafanir til að bregðast við efnahagslegum áhrifum Covid-19 heimsfaraldursins.

Ég held að það megi fullyrða, virðulegi forseti, að ekki er um að ræða síðasta fjáraukalagafrumvarpið á þessu ári. En vissulega líður tíminn og við horfum fram veginn. Það er stutt í að við förum að fjalla um og vinna með endurskoðaða ríkisfjármálastefnu, ríkisfjármálaáætlun til næstu fimm ára og fjárlagafrumvarp fyrir árið 2021. En það þarf í það minnsta einn fjárauka til og þar má gera ráð fyrir fjárheimildum vegna aukins atvinnuleysis og annars kostnaðar sem tengist heimsfaraldri að því marki sem rúmast ekki innan almenns varasjóðs.

Samtals nema tillögur um auknar fjárheimildir tæpum 65,2 milljörðum kr. Umfangsmestu útgjaldaheimildirnar tengjast vinnumarkaðsúrræðum. Annars vegar eru 34 milljarðar kr. sem er framlenging á hlutabótaleið, þ.e. greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli. Um minnkað starfshlutfall er fjallað í sérstöku frumvarpi á þskj. 1128 og um framlengingu hlutabótaleiðarinnar á þskj. 1427. Hins vegar er um að ræða 27 milljarðar kr. vegna greiðslu á hluta launa á uppsagnarfresti og er um það sérstaklega fjallað í frumvarpi á þskj. 1424. Auk þessara tveggja vinnumarkaðsúrræða eru í þriðja lagi lagðir til rúmir 2 milljarðar kr. vegna endurgreiðslna til kvikmyndagerðar á Íslandi. Í fjórða lagi eru 2 milljarða kr. greiðsla launa til einstaklinga sem sæta þurftu sóttkví vegna faraldursins og um það er fjallað í sérstöku frumvarpi á þskj. 1131.

Þá er lögð til heimild til handa ráðherra til að leggja allt að 650 millj. kr. stofnframlag í Kríu – sprota- og nýsköpunarsjóð, um það er fjallað í sérstöku frumvarpi á þskj. 1219, og allt að 500 millj. kr. til Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins vegna veitingar sérstakra mótframlagslána til sprotafyrirtækja sem orðið hafa fyrir tímabundnum skakkaföllum vegna heimsfaraldursins. Um það er fjallað í sérstöku frumvarpi á þskj. 1490.

Virðulegi forseti. Það vill stundum gleymast að ekki hafa neinar ráðstafanir verið gerðar um eiginlegar breytingar á gildandi fjárlögum og standa þau í raun óhögguð en útgjaldaheimildir fjárlaga ársins 2020 nema rúmum 1.004 milljörðum kr. Við höfum síðan aukið við útgjaldaheimildir með tvennum fjáraukalögum og að þessu frumvarpi meðtöldu hækka þær samtals um 103 milljarða, eða um rúmlega 10% frá gildandi fjárlögum, og nema þá samtals 1.107,5 milljörðum kr.

Nefndin fékk sérstaka kynningu á skýrslu ríkisendurskoðanda um hlutastarfaleiðina. Þá fékk nefndin kynningu á sviðsmyndum sem unnið er eftir í fjármála- og efnahagsráðuneytinu um afkomu- og skuldahorfur ríkissjóðs í tengslum við frumvarpið og þær ráðstafanir sem við höfum fjallað um í fyrri fjáraukalögum, auk annarra ráðstafana sem koma fram á tekjuhlið og hafa komið til umfjöllunar í öðrum nefndum og í öðrum frumvörpum.

Þegar áhrif af auknu atvinnuleysi og lægri skattheimtu, sem við köllum sjálfvirka sveiflujöfnun, bætast við þá stefnir í um 250 milljarða kr. lakari afkomu en áætlað var í fjárlögum og 110 milljarða kr. halla á næsta ári. Mikilvægt er að ráðstafanir í ríkisfjármálum á næstu árum miði að því að koma fjármálum hins opinbera í sjálfbæran farveg en standa um leið vörð um velferðarkerfið og samneysluna. Skuldir ríkissjóðs eru lágar, sem hlutfall af vergri landsframleiðslu í samanburði við flest önnur ríki. Við erum því í færum til þess að fjármagna hallarekstur með lántökum og ríkissjóður stendur sterkt að þessu leyti og ætti að geta gefið sér tíma, um leið og við stöndum vörð um velferðina, til að ná aftur jafnvægi.

Meiri hlutinn vekur athygli á því að nær allar breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu tengjast öðrum þingmálum þar sem efnisleg umræða hefur átt sér stað. Á það við um framlagningu hlutabótaleiðar, greiðslu launa á uppsagnarfresti, launagreiðslur í sóttkví og stofnfjárframlag til Kríu – sprota- og nýsköpunarsjóðs sem og til Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, svokallaðrar Stuðnings-Kríu.

Aðeins er tillögu um 2,1 milljarð kr., til að mæta auknu umfangi endurgreiðslna vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, ekki að finna í sérstöku frumvarpi. Endurgreiðsluhlutfall miðast við 25% af framleiðslukostnaði og þau sjónarmið komu fram hjá umsagnaraðilum að hækkun á því hlutfalli kynni að styrkja samkeppnisstöðu greinarinnar.

Meiri hlutinn bendir á að þörf er á endurskoðun laganna í heild, eins og m.a. hefur komið fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurgreiðslukerfið, og telur í því sambandi vel koma til greina að endurskoða endurgreiðsluhlutfallið til hækkunar. Samtals er gerð tillaga um 2.120 millj. kr. viðbótarfjárheimild á þessum lið sem mætir öllum þegar gefnum vilyrðum.

Í frumvarpinu eru gerðar tillögur um að heimilt sé að leggja allt að 650 millj. kr. stofnframlag í Kríu – sprota- og nýsköpunarsjóð. Fjallað er um sjóðinn í sérstöku frumvarpi þar sem nánar er kveðið á um hlutverk sjóðsins og framkvæmd fjárfestinga hans. Frumvarpið byggist á tillögum sem komið hafa fram á síðustu árum, m.a. í nýsköpunarstefnu sem birt var á síðasta ári.

Einnig er gerð tillaga um að leggja allt að 500 millj. kr. í Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins sem hefur það hlutverk að fjárfesta í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Ætlunin er að nýta framlagið til þess að veita mótframlagslán til sprotafyrirtækja, gegn framlagi fjárfesta til viðkomandi fyrirtækis. Þetta úrræði gengur undir nafninu Stuðnings-Kría. Um er að ræða nánari útfærslu á 1.150 millj. kr. stofnframlagi sem samþykkt var í fyrri fjáraukalögum til að efla vöxt og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og stuðla að virku fjármögnunarumhverfi fyrir sprota- og nýsköpunarfyrirtæki. Undirbúningur að Stuðnings-Kríu er þegar hafinn í samvinnu við Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins og miðað við að aðgerðin geti komið til framkvæmda í sumar.

Meiri hlutinn telur þetta úrræði mjög mikilvægt til að sporna við efnahagssamdrættinum og leggur til að framlagið miðist við allt að 700 millj. kr. Greiðsla stofnfjárframlagsins er þó háð eftirspurninni og greiðslur til Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins verða í samræmi við eftirspurn og samþykkt lán hverju sinni upp að 700 millj. kr. hámarkinu.

Ég vil taka það fram hér, virðulegur forseti, að um það var nokkur sátt í nefndinni að mæta þessu í efri mörkunum. Það kom fram að áætluð eftirspurn væri á bilinu 500–700 milljónir og fjárheimildarbeiðnin upp á 500 milljónir. Þetta mál var í sérstöku frumvarpi og um það var fjallað í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Ég myndi segja að vilji nefndarmanna hafi sömuleiðis staðið til að passa upp á að úrræðið næði tilætluðum árangri, að sú staða kæmi ekki upp að það vantaði upp á fjárheimildina og að fjárhæðirnar væru þá bútaðar niður í minni skammta ef þörfin væri meiri.

Fyrir nefndina komu Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu sem kynntu erindi sitt um kostnað vegna Covid-aðgerða. Aldraðir eru einn viðkvæmasti hópur fólks fyrir alvarlegum afleiðingum af Covid-veikindum. Hjúkrunarheimili fengu tilmæli um aðgerðir til að vernda heimilismenn sína og gripu til umfangsmikilla ráðstafana. Aðgerðirnar skiluðu mikilvægum árangri. Aðgerðir og framkvæmd var á ábyrgð heimilanna. Samtökin hafa gert greiningu á kostnaði og umfangi aðgerðanna. Meiri hlutinn tekur undir að aðgerðirnar hafi skilað árangri í baráttunni gegn Covid. Kostnaður heilbrigðiskerfisins vegna Covid-aðgerða verður tekinn til skoðunar í fjárauka að hausti.

Meiri hlutinn leggur til að við undirbúning frumvarps til fjáraukalaga að hausti verði horft til reksturs hjúkrunarheimila á yfirstandandi ári. Metið verði hvort tilefni sé til þess að koma til móts við hjúkrunarheimilin með auknum fjárframlögum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

Til umfjöllunar í atvinnuveganefnd sem við tókum fyrir hér fyrr í dag, virðulegi forseti, er frumvarp um nýjan sjóð, Ferðaábyrgðasjóð. Sjóðnum er ætlað að bregðast tímabundið við neikvæðum áhrifum kórónuveirufaraldursins á starfsemi skipuleggjanda eða smásala og þannig tryggja hagsmuni neytenda.

Megininntak frumvarpsins varðar endurgreiðslur til ferðamanna vegna pakkaferða, sem koma átti til framkvæmdar á tímabilinu frá 12. mars til og með 30. júní 2020 en var aflýst vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna vegna heimsfaraldurs Covid-19. Þannig var frumvarpið kynnt en ég hygg að lagt hafi verið til að það yrði framlengt í það minnsta í einn mánuð. Ef ferðamenn hafa ekki fengið endurgreiðslu frá skipuleggjendum eða smásölum geta þeir beint kröfu að Ferðamálastofu um að sjóðurinn endurgreiði þeim þær greiðslur sem þeir eiga rétt á til endurgreiðslu samkvæmt ákvæðum laganna. Skipuleggjendur eða smásalar sem hafa endurgreitt ferðamönnum vegna pakkaferða geta einnig beint kröfu að Ferðamálastofu um að sjóðurinn endurgreiði þeim þær greiðslur.

Ferðamálastofa fer með umsýslu sjóðsins og mun taka ákvörðun um hvort skilyrði séu til að greiða ferðamanni eða skipuleggjanda eða smásala úr sjóðnum samkvæmt kröfu hans. Ferðamálastofa er ekki bundin af kröfugerð ferðamanns eða skipuleggjanda eða smásala við ákvörðun um greiðslu úr sjóðnum til hans. Sé ákvörðun tekin um endurgreiðslu til ferðamanns úr sjóðnum á grundvelli kröfu hans mun á móti stofnast krafa sjóðsins á hendur viðkomandi skipuleggjanda eða smásala sem nemur þeirri fjárhæð sem sjóðurinn hefur greitt. Lagt er upp með að skipuleggjandi eða smásali endurgreiði sjóðnum til baka á allt að sex árum og skal krafan bera vexti sem byggjast á markaðsforsendum. Skilyrði vegna endurgreiðslu úr sjóðnum eru nánar útfærð í sérstöku frumvarpi.

Meiri hlutinn leggur til breytingar á 5. gr. fjárlaga um lántökur og 6. gr. um sérstakar heimildir í því skyni að heimila ríkissjóði að fjármagna Ferðaábyrgðasjóð og heimila sjóðnum að greiða ferðamönnum kröfur og á móti að innheimta lán frá skipuleggjenda eða smásala pakkaferða.

Nú er það, virðulegi forseti, nokkuð rúmt áætlað hvað þurfi mikla fjármuni í þetta úrræði. Ég hygg að nefndin þurfi ekki að bregðast við því þó að tímabilið verði lengt við þær alvarlegu aðstæður sem ferðaþjónustan glímir við. Ef við förum sirka ár aftur í tímann, þegar rekstur flugfélags stöðvaðist hér og það varð gjaldþrota, kom upp galli í pakkaferðalöggjöfinni, við getum orðað það þannig, þar sem margir ferðaskipuleggjendur lentu í hremmingum. Ég held því að óhjákvæmilegt hafi verið að taka á þessari alvarlegu stöðu, eins og hér er verið að gera.

Staða loðdýrabænda kom til umræðu í nefndinni. Í október síðastliðnum skilaði starfshópur skipaður af samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skýrslu um greiningu á framtíðarhorfum í minkarækt. Þar kemur m.a. fram að minkarækt hefur hagstætt kolefnisfótspor og dregur verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda með fullnýtingu á hráefnum sem annars yrði að urða. Á þessu ári hefur heimsfaraldur kórónuveiru haft þau áhrif á þessa atvinnugrein að algjört tekjufall hefur orðið þar sem uppboðum á skinnum hefur verið frestað.

Beinir meiri hlutinn því til viðeigandi ráðuneyta að ljúka útfærslu einstakra tillagna skýrslunnar á þessu ári.

Í nýlegri úttekt Byggðastofnunar um áhrif niðursveiflu í ferðaþjónustu á atvinnuástandið á landsbyggðinni er leitast við að draga fram ólíka stöðu sveitarfélaga vegna samdráttar í ferðaþjónustu. Fjölmörg sveitarfélög hafa orðið fyrir miklu tekjufalli vegna samdráttar í ferðaþjónustu. Í fjáraukalögum sem samþykkt voru í maí var veitt 250 millj. kr. framlag til Suðurnesja og ráðuneyti sveitarstjórnarmála leiðir aðgerðaáætlun til að nýta þá fjármuni. Þau sex sveitarfélög sem koma fram í þessu frumvarpi eru Skútustaðahreppur, Sveitarfélagið Hornafjörður, Skaftárhreppur, Mýrdalshreppur, Rangárþing eystra og Bláskógabyggð og eiga það sammerkt að niðursveiflan kemur sérstaklega illa við þau.

Starfshópur á vegum sveitarstjórnarráðherra er að meta stöðu sveitarfélaganna frekar og heildrænt og möguleg úrræði. Ráðgert er að tillögur liggi fyrir í júlí. Mun þá liggja betur fyrir hvort frekari stuðning þurfi til við atvinnulíf og samfélag vegna þessara tímabundnu aðstæðna og hvers konar aðgerðir væru þá heppilegar í því sambandi.

Meiri hlutinn gerir tillögu um samtals 150 millj. kr. framlag til þessara sex framangreindu sveitarfélaga. Hér er jafnframt gerð tillaga um að við 5. gr. fjárlaga fyrir árið 2020 bætist nýr liður, 8. töluliður, um heimild fjármála- og efnahagsráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að heimila Ferðaábyrgðasjóði, sem er í vörslu Ferðamálastofu, að greiða kröfur vegna endurgreiðslu pakkaferða sem nema allt að 4.500 millj. kr. Þetta er nokkuð rúmt og á rúmu bili þannig að ég hygg að þrátt fyrir, eins og ég held, að standi til að lengja þetta tímabil þurfi ekki viðbótarheimild til enda stofnist í því sambandi krafa á hendur skipuleggjendum eða smásölum.

Þá er samhliða gerð tillaga um að við 6. gr. fjárlaga fyrir árið 2020 bætist nýr liður, 7.36, sem veitir fjármála- og efnahagsráðherra heimild til að veita allt að 4.500 millj. kr. framlag til Ferðaábyrgðasjóðs. Jafnframt er lögð til sú breyting á lið 7.35 í frumvarpinu að veitt verði allt að 700 millj. kr. framlag til Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins í stað 500 millj. kr. framlags sem gert var ráð fyrir, og skal greiðsla framlagsins vera í samræmi við eftirspurn og samþykkt lán hverju sinni upp að hámarkinu.

Breytingartillögurnar er að finna á sérstökum þingskjölum sem ég ætla ekki að rekja frekar enda er gert grein fyrir þeim hér í nefndarálitinu og framsögu minni. Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali.

Jón Steindór Valdimarsson, hv. þingmaður og áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu með fyrirvara en aðrir hv. þingmenn sem undir álit meiri hluta rita eru Willum Þór Þórsson, Haraldur Benediktsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Páll Magnússon og Steinunn Þóra Árnadóttir.