150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

fjáraukalög 2020.

841. mál
[18:56]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir mjög góða spurningu. Þetta er auðvitað stóra spurningin. Ég myndi segja að svipað og annars staðar í heiminum reyndum við fyrst þegar þetta skall á að fylgjast með öðrum. Við höfðum ekki mikið við að styðjast, hvað hægt væri að gera, og gátum ekki annað en fylgst með því sem aðrir voru að gera. Við fórum í að verja störf. Forgangurinn var sóttvarnir. Út frá því förum við fljótlega hlutabótaleiðina, laun í sóttkví. Við erum síðan að samþykkja fjárheimildir hér. Við reynum að koma sérstaklega til móts við ferðaþjónustuna þar sem fyrirtæki þurfa að komast í skjól og erum þar af leiðandi að greiða fyrir uppsagnir. Svo eru fjölmargar aðrar aðgerðir sem kannski hafa áhrif til lengri tíma, eins og við sjáum birtast í þessu fjáraukalagafrumvarpi, sem eru nýsköpun. Fyrsta fjáraukalagafrumvarpið var mjög fjárfestingartengt. Það var fjárfestingarátak til að auka framkvæmdir, til að bregðast við atvinnuástandi. Hér var brugðist mjög hratt við og mjög í líkingu við það sem var gert annars staðar. Ég get tekið Norðurlöndin sem dæmi. Lykilatriðið hér er einmitt, eins og ég gat um í framsögunni, að við fengum að sjá þær sviðsmyndir sem fjármálaráðuneytið hefur verið að vinna eftir og þetta eru meira og minna sviðsmyndir sem hafa verið að birtast hjá Seðlabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Svo er ekkert langt í það að við förum að horfa kannski inn í eitthvað sem má nærri kalla spár. (Forseti hringir.)

Ég skal halda áfram með þetta svar í seinna andsvari því að ég er ekki fyllilega búinn að svara góðri spurningu hv. þingmanns.