150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

fjáraukalög 2020.

841. mál
[19:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að orða þetta svo vegna þess að það er mjög mikilvægt að fram komi að auðvitað vorum við ekki að fara í þessar aðgerðir af því að aðrir fóru í svoleiðis aðgerðir. Við fórum í tilteknar aðgerðir til að verja störf, verja efnahag heimila og fyrirtækja. Það vill svo til að upplýsingaflæðið er orðið þannig í dag að það er hægt á sama tíma að fylgjast með því sem aðrir eru gera og hvernig þeir gera það og það er vissulega til bóta.

Ég er sammála því sem fram kemur í þessum skýrslum sem maður hefur fylgst með, til að mynda frá OECD sem hefur nánast verið með samtímaskýrslugjöf og mat á aðgerðum OECD-landanna og áhrifum. Það er mjög mikilvægt að við höldum uppi slíku upplýsingaflæði, gagnsæi og samtímaeftirliti á allar aðgerðir, hvert umfangið er og hverju þær skila. Mér fannst skýrsla ríkisendurskoðanda um hlutabótaleiðina dæmi um slíkt og ég held að við eigum að geta gert það. Það er búið að halda mjög vel til haga öllum kostnaði í heilbrigðiskerfinu. Við komum inn á það í nefndarálitinu að við fengum Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu og þá er sanngjarnt að horfa til þess að þeir stóðu sig sannarlega mjög vel í sóttvörnum.

Varðandi nemendur, af því að það blasir við að það er mikil ásókn í skólana, bæði framhaldsskólana og háskólana og hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hefur komið fram opinberlega og sagt: Við tökum við öllum nemendum og við munum fjármagna það. Ég get bara tekið undir með hæstv. ráðherra að það eigum við að gera vegna þess að við þessar aðstæður er auðvitað mjög mikilvægt að fólk geti nýtt tímann (Forseti hringir.) til að mennta sig ef það hefur ekki atvinnu eða vill (Forseti hringir.) frekar atvinnuna. Við eigum að bjóða upp á þessi úrræði.