150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

fjáraukalög 2020.

841. mál
[19:07]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Áfram með endurgreiðsluhlutfallið. Ég hygg að allt það sem hv. þingmaður sagði í seinna andsvari megi styðja með rökum og sé rétt. En það er fleira sem kemur til þegar við erum í slíkri samkeppni heldur en bara endurgreiðsluhlutfallið. Við erum ekki eftirbátur allra þjóða þegar kemur að endurgreiðsluhlutfalli á kostnaði og við höfum svo margt annað og fleira upp á að bjóða. Við þurfum líka að skoða þetta í samhengi við þá eftirspurn sem er til staðar. Það kann að vera að kvikmyndagerðaraðilar vilji koma til Íslands þrátt fyrir að hlutfallið sé 25%, en ekki endilega 35%. Við eigum auðvitað ekki að gefa það frá okkur ef við erum sterk í samkeppni á öðrum sviðum, með náttúruna okkar og sóttvarnirnar og annað í þeim dúr. Þannig að það er ekki bara endurgreiðsluhlutfallið sem gildir. Miðað við þær upplýsingar sem við fengum þó þá erum við ekki lægst allra þjóða og blessunarlega höfum við hækkað þetta hlutfall, mig minnir að það hafi verið 14% þegar við fórum af stað fyrir einhverjum árum. Við höfum hækkað þannig að við höfum verið nokkuð samkeppnisfær.

En ég vil taka undir með hv. þingmanni að við eigum að nýta alla mögulega samkeppnisþætti og þar með talið endurgreiðsluhlutfallið til að vera samkeppnisfær í þessu vegna þess að bara samantekt Hagstofunnar sýnir okkur hver ábatinn af því er og getur verið.