150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

fjáraukalög 2020.

841. mál
[19:08]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Herra forseti. Ég ætla ekki að vera mjög langorður. Ég er kannski farinn að hljóma eins og gömul plata en oft eru bestu plöturnar gamlar. Ég ætla hins vegar að draga fram nokkur atriði. Ég veit að við erum lúin eftir langan dag en mig langar bara aðeins að draga fram að við erum að ræða um 65 milljarða kr. fjárauka og það þarf kannski smáumræðu af hálfu okkar þingmanna. En ég skal ekki vera langorður því að margt af þessu hafið þið því miður heyrt ansi oft. Ég vona að ég nái einhvern tímann eyrum ykkar.

Við sjáum að þetta er þriðji fjáraukinn. Allir þessir fjáraukar hafa í raun verið gagnrýndir af mjög mörgum, að þeir dugi ekki til að mæta þeim vanda sem íslensk heimili og atvinnulíf glíma við. Við erum að ganga inn í dýpstu kreppu í 100 ár. Við þurfum að hugsa stórt, við þurfum að hugsa stærra, við þurfum að vera róttæk, við þurfum að sýna djörfung í ákvarðanatöku.

Hins vegar finnst mér vera hugmyndaleysi hjá ríkisstjórninni, eins og ég hef gagnrýnt. Við sjáum að 75% af öllum aðgerðum ríkisstjórnarinnar fara í raun og veru í tvær aðgerðir. 75% fyrir atvinnuleysisbætur annars vegar og hins vegar í niðurgreiðslu á launum á uppsagnarfresti. Þetta finnst mér ekki alveg boðlegt til að mæta því ástandi sem nú er í gangi. Einungis 5% af heildaraðgerðinni fer í nýsköpun. Ég hef vonandi haldið hér innblásnar ræður um að nýsköpun sé töfraorðið í kreppu. Við þurfum að gera betur, t.d. í kvikmyndaiðnaðinum, eins og varðandi Tækniþróunarsjóð. Ég veit að eitthvað hefur verið bætt í en það dugar ekki. Við þurfum að mæta þessari kreppu af meiri metnaði.

Ég hef sömuleiðis kallað eftir því að hér verði sett fram sérstök fjárfestingaráætlun. Það vill svo til að ég var í þessum þingsal í síðasta hruni. Þá var sett á fót sérstök græn fjárfestingaráætlun til að skapa störf. Ég sé ekki nýju störfin sem hér er verið að skapa. Ég veit að ríkisstjórnin hefur verið í varnarbaráttu og rústabjörgun en sá tími er svolítið liðinn. Nú vil ég sjá framtíðarsýnina. Á hverju ætlum við að byggja hagkerfi framtíðarinnar? Atvinnuleysi hefur aldrei verið eins hátt í sögu Íslands, liggur við. Og það stefnir í að hækka með haustinu samkvæmt spám vegna þess að við sjáum litla atvinnusköpun af hálfu ríkisins. Ég hef kallað eftir margs konar atvinnusköpun, bæði í einkageiranum og hinum opinbera. Ég hef talað fyrir daufum eyrum hjá ríkisstjórninni hvað það varðar. Við þurfum að búa til störf en þá þarf að beita hinu opinbera með réttum hætti.

Annað sem mig langar aðeins að flagga í þessari stuttu ræðu minni er að við þurfum að gæta þess sérstaklega hvernig hallanum verður mætt næsta vetur og næstu misseri. Það stefnir í mikinn halla á ríkissjóði. Í síðasta hruni fóru stjórnvöld hina svokölluðu blönduðu leið til að mæta minnkandi tekjum og auknum útgjöldum. Þá var reynt að hlífa velferðarkerfinu og menntakerfinu eins og kostur var. Og farið var í skattahækkanir. Þetta er umræða sem við eigum eftir að taka en við þurfum að mínu mati og Samfylkingarinnar að verja opinbera kerfið, verja opinberu þjónustuna fyrir þá sem reiða sig á hana, hvort sem það eru eldri borgarar, öryrkjar, námsmenn eða barnafólk o.s.frv. Það er ekki rétt að þessir hópar eigi að bera uppi hallann. Það er ekki rétt að þessir hópar eigi að fjármagna hallann. Mig langar að ítreka það að við getum líka tekið talsverðan tíma í að ná þessum halla niður. Það liggur ekki eins mikið á og síðast. Þá vorum við í gjörgæslumeðferð hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Það er ekkert svoleiðis í dæminu í dag. Þær skuldir sem ríkissjóður er að taka á sig eru fyrst og fremst innlendar skuldir.

Hlífum kerfunum, hlífum þessum viðkvæmu hópum frekar en að kvitta upp á kalda hugmyndafræði hægri manna um að ná hallanum niður sem fyrst. Það þurfum við ekki að gera og eigum ekki að gera. En við þurfum að taka umræðuna um skatta. Við þurfum að finna hin breiðu bök. Hin breiðu bök er ekki að finna hjá námsmönnum og ungu fólki, öryrkjum og eldri borgurum. En hin breiðu bök má finna víða í samfélaginu og við þurfum að taka umræðuna um auðlindagjöld eins og ég hef ítrekað talað um.

Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í að gagnrýna uppsagnarleiðina. Fulltrúi okkar í efnahags- og viðskiptanefnd gerði það þegar málið var afgreitt af hálfu þeirrar nefndar. Til að súmmera það aðeins upp hef ég langmestar áhyggjur af atvinnuleysi. Atvinnuleysi er hörmulegt fyrir þann sem lendir í því. Það er hörmulegt fyrir hagkerfið. Það er gríðarleg sóun fólgin í atvinnuleysi og við þurfum af öllum mætti að vinna gegn því. Við þurfum að búa til tækifæri og störf fyrir venjulegt fólk. Ég kvíði rosalega fyrir haustinu. Ég sé ekki þessi nýju störf verða til. Það fólk sem er búið að missa vinnuna, er að vinna uppsagnarfrestinn sinn eða er með tekjutengdar atvinnuleysisbætur sem það hefur einungis í þrjá mánuði í haust, er að detta á strípaðar bætur sem eru 290.000 kr. á mánuði. Þetta eru þúsundir íslenskra fjölskyldna. Ég skal lofa því að ekki einn einasti þingmaður treystir sér til að lifa á 290.000 kr. á mánuði. Ef svo er, af hverju látum við þá þann hóp gera það? Af hverju er tillaga Samfylkingarinnar og fleiri um að hækka atvinnuleysisbætur felldar hér ítrekað? Þetta eru samborgarar okkar. Af hverju erum við tilbúin að láta það fólk, fólk sem við þekkjum, fólk sem er hluti af okkar samfélagi, þurfa að lifa á 290.000 kr. á mánuði? Það gengur ekki í einu dýrasta ríki jarðar.

Þetta þurfum við að bæta því að eitt það versta sem fólk getur lent í er að verða fyrir slíku tekjutapi og verða síðan atvinnulaust til lengri tíma. Fólk er með skuldbindingar, fólk er með börn á sínu framfæri, alls konar útgjöld og annað sem þarf að sinna en þarf að ná endum saman. Við getum ekki boðið Íslendingum, sem verða atvinnulausir í haust og eru orðnir atvinnulausir, upp á þau kjör sem við bjóðum atvinnulausum upp á. Ef ríkissjóður telur sig ekki hafa efni á því þá finnum við bara tekjurnar og það gerum við með sköttum. Ég segi það alveg hiklaust: Ef þið treystið ykkur ekki til að finna tekjurnar í ríkiskassanum þurfum við bara að finna þær og það gerum við með sköttum eða auðlindagjöldum. Ég er ekki að tala um að skattleggja millistéttina og hvað þá lágtekjufólk. En það er til hópur fólks sem á ansi mikið.

Menn hafa oft heyrt mig fara með þessa rullu; 1% ríkustu Íslendinganna á meiri hreinar eignir en 80% landsmanna. Hin breiðu bök má því finna víða. Það er sérkennileg pólitík af hálfu ríkisstjórnarinnar að lækka veiðileyfagjöldin um helming eins og hér hefur verið gert á kjörtímabilinu, ef við lítum bara á hvernig þau voru í upphafi kjörtímabilsins og hvað þau eru núna. Ég ætla ekki að fara að rífast um hvað sé lækkun og hvað sé hækkun. Tölurnar tala sínu máli. Í ríkisfjármálasamhenginu, þar sem ríkiskassinn er með 1.000 milljarða, er því svo sannarlega borð fyrir báru til að mæta þeim hópi sem nú kreppir að, þessum atvinnulausa hópi sem upplifir þá erfiðleika sem felast í því að vera atvinnulaus. Síðan koma þessar efnahagslegu hremmingar sem eru okkur ekki boðlegar. Við erum tíunda ríkasta land í heimi. Hér er nóg til skiptanna ef pólitískur vilji er fyrir því. Þetta er brýning til kollega minna í Vinstri grænum, Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum. Við getum gert betur og við skulum gera betur varðandi þennan hóp.