150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

fjáraukalög 2020.

841. mál
[19:48]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir ræðuna og innlegg hans í umræðu um fjáraukalagafrumvarpið. Ég get tekið undir margt sem þingmaðurinn kom inn á og þau lokaorð að stóra verkefnið nú og fram undan er að mæta atvinnuleysi, skapa störf og koma í veg fyrir að hér verði langvarandi atvinnuleysi. Hv. þingmaður kom inn á að hér hefðu stjórnvöld farið í fjölbreyttar aðgerðir og dró fram í því tilliti tvö úrræði, stuðningslán og brúarlán. Ég vil meina að við höfum brugðist hratt við og með mjög fjölbreyttum úrræðum sem hafa nýst afar vel; gjaldfrestir, lokunarstyrkir, hlutabætur, laun í sóttkví, náms- og starfsúrræði, ýmiss konar félagslegar úrbætur í síðasta fjárauka til geðheilbrigðismála, laun í uppsögn og úrræði til að verja störf og atvinnustarfsemi.

Stuðningslánin og brúarlánin eru mjög mikilvægur liður í því að aðstoða fyrirtæki í gegnum þessar hremmingar. Ég tek undir það með hv. þingmanni að bið eftir þeim er ekki æskileg, og það er miður, sérstaklega sem snýr að stuðningslánum. Ég vil nú meina varðandi brúarlánin að eins og þau voru byggð upp með ríkisábyrgð þá beri að leita allra annarra úrræða áður en leitað er í brúarlánin. Ég vil meina að það geti líka verið jákvæð skilaboð fólgin í því. Ég ætla í seinna andsvari að koma að stuðningslánunum, sem var hinn liðurinn sem hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni.