150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

fjáraukalög 2020.

841. mál
[19:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, að stuðningslánunum. Ég tek undir með hv. þingmanni að mikilvægt er að stuðningslánin eins og þau voru hugsuð skili sér. Ástæðan fyrir því að þau gerðu það ekki þá og þegar við samþykktum þau var einfaldlega sú að við vorum of stíf á skilyrðum. Um leið og við viljum vanda okkur og passa upp á að skilyrðin séu þannig að úrræðið nýtist sannarlega þeim sem þurfa á að halda, þá er hættan alltaf sú að skilyrðin verði of stíf. Í þessu tilviki var um að ræða fyrirtæki, fjölmörg fyrirtæki, sérstaklega í ferðaþjónustu, sem á þurftu að halda. Þegar þau lenda í hremmingum með gríðarlegu tekjufalli bjarga þau sér með yfirdrætti við sinn viðskiptabanka.

Nú bjuggum við svo um hnúta að ekki mátti taka stuðningslán til að greiða niður önnur lán. Við í hv. efnahags- og viðskiptanefnd erum að bregðast við því hér, þannig að á þeim tíma þar sem yfirdráttur var sannarlega til að bjarga sér í gegnum það, að það skapar sveigjanleika til að mæta þeim vanda sem upp kom. Hann sáum við ekki fyrir og vorum bara of stíf á skilyrðunum og það er miður. En við því er brugðist hér. Við vorum með það til umfjöllunar fyrr í dag.

Virðulegi forseti. Svo get ég alveg tekið undir það með hv. þingmanni að við getum ekki kvartað undan því að ekki hafi verið góð samvinna um þær aðgerðir sem þó ráðist var í og hefur verið ráðist í með minni hluta, þrátt fyrir að minni hlutinn kvarti undan því að meiri hlutinn hafi ekki samþykkt allar þær breytingartillögur sem hafa komið fram samhliða.