150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

fjáraukalög 2020.

841. mál
[19:55]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er mjög jákvætt að verið sé að bregðast við þessu með yfirdráttinn, að fyrirtækjum verði gert heimilt að greiða hann upp með stuðningslánum. Það voru bara einfaldlega mistök að hafa ekki séð þetta fyrir í upphafi. Það eru fjölmörg fyrirtæki akkúrat í þeirri stöðu, að þau eru með yfirdrátt til að bjarga sér yfir nokkrar vikur til að geta staðið við skuldbindingar sínar í fullkomnu tekjufalli. Kröfurnar hér voru bara of stífar, það er alveg rétt hjá hv. þingmanni. Og maður spyr hvort menn hefðu ekki átt að átta sig á þessu ferli þegar var verið að semja við fjármálastofnanir, bæði um brúarlán og stuðningslánin, að menn hefðu átt þá að átta sig á því strax að hér var bara gengið of langt. Ég verð að segja að það tók allt of langan tíma fyrir Seðlabankann að semja um þessi lán og þarna hefðu átt að kvikna aðvörunarljós, að eitthvað væri í þessu ferli sem væri ekki að skila sér og þess vegna ætti að bregðast hratt og vel við því, vegna þess að á þessum tíma hafa dýrmæt verðmæti og tími tapast. Það er eitthvað sem er mjög slæmt í þessu árferði þegar fólk og fyrirtæki treysta á það að stjórnvöld mæti þeim í þessum ófyrirséðu erfiðleikum. Þessi seinagangur og einhverjir hnökrar í þessu ferli gera það að verkum að þessi úrræði komast ekki nægilega hratt og vel til skila. Það er grundvallaratriði í þessu. Það er ekki það að menn haldi hér einhverja góða blaðamannafundi, kynni þessi úrræði og allt lítur þetta vel út, en svo þegar kemur að framkvæmdinni þá dregst þetta von úr viti sem veldur síðan tjóni.